Kl. 14.00–15.30 Stofa 54 (3. mars)
Elín Elísabet Einarsdóttir: Onyfir -Teiknað hversdagslíf (IS)
Síðustu sex árin hef ég farið til Borgarfjarðar eystri reglulega til að vinna í fiski. Onyfir er orð sem margir Borgfirðingar nota til að lýsa ferðalaginu “ofan yfir”, frá Héraði niður á Borgarfjörð, en Onyfir er líka titill teiknaðrar bókar í skissubókarstíl sem ég bjó til og gaf út vorið 2016. Ætlunin með þessu verki var að skrásetja hversdagslífið á Borgarfirði og búa til lítið safn af teiknuðum minningum.
 
Verkið er mikilvægt vegna þess að eins og mörg önnur afskekkt smáþorp á Íslandi er Borgarfjörður á mörkum þess að haldast í byggð vegna fólksfækkunar og efnahagslegra breytinga. Í bókinni Onyfir einblíni ég á að fanga smáatriði í hversdagsleikanum: tjaldinn Baldur sem kemur á hverju sumri til að fá að borða í fiskverkuninni og svarar kalli; Bangsi, sjómaðurinn í flíspeysunni sem samkvæmt mælingum hefur lengsta nefið á Borgarfirði; óútskýrt baðkar fyrir utan blátt hús; ristaða brauðið í kaffistofu fiskverkunarinnar; lundarnir sem snúa aftur á nákvæmlega sama tíma á hverju vori.
 
Í kynningu minni á Hugarflugi mun ég tala m.a. um framsetningu bókarinnar og stöðu mína sem bæði heimamaður og utanbæjarmaður.
 
 
Kolbrún Halldórsdóttir:  Minnisbók um mælt mál (IS)
Umfjöllunarefnið er mælt mál og vangaveltur um langan og stuttan sérhljóða, ásamt öðrum einkennum íslenska talmálsins. Í samræmi við ráðstefnuþemað "minni", verður útgangspunktur umfjöllunarinnar minnisbók, sem ég á í fórum mínum og hef punktað í um árabil dæmi um framburð í Ríkisútvarpinu. Dæmin varpa ljósi ýmsar hefðir og reglur í framburði íslensks talmáls.  
Innleggið er ætlað leikurum og öðrum þeim sem vinna með talað mál af einhverju tagi, hvort sem um er að ræða upplestur eða flutning leiktexta. Innleggið hentar vel í samhengi við önnur svipuð, þar sem líklegt er að þrjú tuttugu mínútna innlegg verði spyrt saman í dagskrá Hugarflugs.  
 
Unnur Óttarsdóttir: Minni með myndum (IS)

Sjónsköpun hefur verið nýtt sem minnistækni frá því á tímum Forn-Grikkja. Þrátt fyrir að áhugi á myndum sem minnistækni hafi ríkt um langt skeið þá var það ekki fyrr en árið 1967 að Roger Shepard kynnti rannsókn sem sýndi að auðveldara var að muna myndir en orð. Fleiri seinni rannsóknir staðfesta að sjónsköpun auðveldar minni.

Tiltölulega nýlega var farið að nýta teikningar til að efla minni, t.d. í tengslum við gerð hugkorta. Árið 2000 var framkvæmd rannsókn í tengslum við listmeðferð sem sýndi að teikningar auðvelda minni (Ottarsdottir, 2005, í vinnslu). Rannsókn sem framkvæmd var árið 2010 sýndi að símakrot jók minni um 29%. Enn önnur nýleg rannsókn staðfesti að auðveldara er að muna teikningar en orð.

Í erindinu verður fjallað um minni með myndum í tengslum við ofangreindar rannsóknir og aðferðir. Skoðaðar verða hugsanlegar ástæður fyrir því hvers vegna auðveldara er að muna myndir en orð m.a. út frá kenningum listmeðferðar. Einnig verður fjallað um siðferðilegar spurningar frá sjónarhorni listmeðferðar í tengslum við minnisteikningar fyrir börn sem eiga um sárt að binda.