Á námskeiðinu er unnið markvisst að því að búa þátttakendur undir áheyrnarprufur. Þátttakendur fá að kynnast því hvernig áheyrnarprufum er háttað, t.d. í tónlistarháskólum, í söngkeppni, fyrir umboðsmenn og óperuhús. Meðal annars verður kynnt fyrirkomulag, kröfur og mismunandi áherslur í mismunandi löndum, s.s. Þýskalandi, Englandi og Bandaríkjunum. Þátttakendur fá þjálfun og reynslu í að fullvinna aríur og söngles (ít. recitativo); samhengi, texta og tónlistar, skoða bakgrunn verksins og persónusköpun. Farið verður yfir helstuþætti varðandi tónlistarstíl, framburð, textameðferð, líkamsvitund, kvíðastjórnun, söng-, leik- og sviðstækni. 
Þátttakendur undirbúa að lágmarki eina aríu og eitt recitatíf að eigin vali til þess að vinna með á námskeiðinu. Mikilvægt er að þátttakendur kunni tónlistina utanað áður en námskeið hefst.
Lærdómsviðmið: Í lok námskeiðs eiga nemendur að:
  • Geta undirbúið aríu og recitatíf úr óperu.
  • Geta kynnt sig í fyrirsöng og flutt aríu úr óperu af öryggi fyrir dómnefnd.
  • Öðlast þekkingu á því hvernig fyrirkomulag er á fyrirsöng á mismunandi stöðum s.s. í tónlistarháskólum, söngkeppnum og fyrir umboðsmenn eða óperuhús.
  • Þekkja helstu grunnatriði í sviðstækni auk grunnhugmynda í leiktækni (Stanislavskíj).
  • Geta undirbúið texta á erlendum tungumálum.
  • Öðlast skilning og þekkingu á námi og starfi söngvarans; mikilvægi tónlistarstíls, framburðar, textameðferðar, söngtækni, leiktækni, sviðstækni og líkamsvitundar.
Námsmat: Námsmat byggir á virkri þátttöku og leiðsagnarmati.
Fyrir hverja er námskeiðið: Núverandi nemendur í bakkalárnámi í söng, nemendur úr tónlistarskólum, framtíðarnemendur og fagaðila á vettvangi.
Kennarar: Umsjón og kennsla: Þóra Einarsdóttir og Hanna Dóra Sturludóttir
Dísella Lárusdóttir - söngur
Bjarni Snæbjörnsson - leiktúlkun
Bjarni Thór Kristinsson - vinna með leikstjóra
Auk fleiri gestafyrirlesara og kennara
Samstarfsaðilar: Söngskóli Sigurðar Dementz og Söngskólinn í Reykjavík
Einingar: 4 ECTS
Kennslutungumál: íslenska
Staðsetning: Laugarnes
Kennslutímabil: 15 - 27. júní
Tímasetning: Námskeiðið er virka daga frá kl. 9:00 til 17:00 og endar með tónleikum
Forkröfur: Stúdentspróf, tónlistarfólk
 

Rafræn umsókn