Það er erfitt að eiga við þá áráttu mína að sneiða hjá öllum óþarfa. Hún forðar textanum á milli línanna—fyllir í öll göt. Samþjöppunin er ekki til að gera textann aðgengilegri, en hann finnur sér hliðstæðu í myndlist minni með þessu móti. Þar er ég líka að kljást við massa.
 
Hrákinn er stafrænn og óbrenndur leirinn kornótt mynd. Hluturinn er úr seilingarfjarlægð. Inntakið er ekki hluturinn sem slíkur heldur það sem loðir við hann. Hrákadallur gæti allt eins verið táknmynd fyrir annað hvort fæðingu eða illan anda eins og raunsæ mynd í ætt við hlandskál karlkvendisins1. Raunsæið er fólgið í því að taka upp hlut og leggja hann frá sér annars staðar. Það er tilbúningur2 (e. ready-made) að taka hversdagslegan hlut og setja í samhengi myndlistar eins og gert var með hlandskálina. Illa haldin af fortíðarþrá flyt ég þannig hrákadall úr fortíð í samtíð. Tilbúningurinn er á huglægari forsendum en hjá karlkvendinu þar sem ég renni hlut og hræki á hann í stað þess að flytja hrákadall á milli safna, af söguminjasafni á myndlistarsafn. Viðfangsefnið liggur milli hluta.