Í hraðri marséringu inn í framtíðina kemst lítið annað að en marséringin sjálf, einn tveir og áfram gakk. Í einbeittri stefnu að lokamarkinu (sem er okkur þó hulið) höfum við gleymt meðspilurum okkar og breytt leiknum í einspil. Í andsvari við marséringuna staðnæmist ég og bý til sögur sem fjalla um það sem ég sé. Þessar sögur birtast í frásagnarkenndum innsetningum; suðupotti staðreynda og ímyndunar, þess sem er og þess sem gæti verið. Aðalpersónurnar eiga aðsetur á stað sem ekki er hægt að fletta upp á Google Maps. Við skulum sjá fyrir okkur höll, höll ímyndaðra raunveruleika: Skáldskaparhöllina. Hvaðan sem komið er að höllinni, er hún miðjusett. Hún er afgirt með síki sem hindrar íbúa hennar frá því að fara út fyrir landamæri hennar ásamt því að sporna gegn því að óboðnir gestir komist inn fyrir þau. Á sitthvorri hlið hallarinnar, rísa tveir turnar. Efst í turnunum standa sjónaukar. Þetta eru þó engir venjulegir sjónaukar heldur gera þeir hverjum þeim sem horfir í gegnum þá, kleift að sjá fortíð, nútíð og framtíð. Líkt og hestsaugu, spanna sjónarsvið sjónaukanna nánast heilhring en í blindum blett þeirra stendur sjálf höllin. Þetta gerir það að verkum að íbúarnir sjá aðsetur sitt ekki í samhengi við það sem liggur handan síkisins. 
 
Í hópi sögupersóna eru Krabbakonan, Mannglyttan og Hákarlinn en þau segja hver með sínum hætti frá einspili mannsins á heimsvellinum. Þær benda okkur á hættur sem stafa af því að líta framhjá mikilvægi samhjálpartilvistar, sér í lagi á tímum óvissu og ótta við afleiðingar mannlífsaldar. Á meðan sögupersónurnar synda um í ört hækkandi síkinu, upplifir sambýlisfólk þeirra innilokunarkennd bakvið luktar dyr hallarinnar. Þegar við settumst að í Skáldskaparhöllinni gleymdum við hlutverki okkar sem leikmenn á velli náttúrumenningar. Meðspilarar okkar hafa þurft að líða gríðarlega fyrir það og nú hefur flýtirinn einnig komið í bakið á okkur sjálfum. Við leitum örþrifaráða í hverjum einasta krók og kima hallarinnar en okkur virðist yfirsjást sá möguleiki að höllinn sjálf sé kjarni vandamálsins.