Nemendur á þriðja ári í vöruhönnun luku nýverið við námskeiðið Stefnumót, sem stóð í 12 vikur. Leiðbeinendur námskeiðsins voru þau Tinna Gunnarsdóttir, Friðrik Steinn Friðriksson og Óskar Kristinn Vignisson. 

Í námskeiðinu var víðiplantan tekin fyrir og hugað að því hvernig mætti vinna ólík efni úr þessari einu trjátegund. Víðir er sterkbyggður og aðallega nýttur til að mynda skjólveggi og undirbúa jarðveg fyrir gróðursetningu annarra verðmætari trjátegunda. Þegar víðirinn hefur gegnt því hlutverki sínu er hann hogginn niður og nýttur í eldivið, kurlaður niður eða skilinn eftir á skógarbotninum þar sem hann brotnar niður og nýtist sem næringarefni. Nemendurnir voru sannfærðir um að nýta mætti víðinn á fjölbreyttari máta. Þau settu sér þá reglu að nýta eingöngu vatn og hita við verkun víðisins og litu á allar afurðir hans sem verðmætan efnivið. Markmiðið var að ná fram náttúrulegri hringrás efnis. Allt sem þau gerðu þurfti að geta nýst sem næringarefni í skóginum, en ekki fyrr en eftir að það hafði þjónað öðrum tilgangi. Auk þess sáu þau fram á að geta fundið staðgengla innfluttra vara/efna. 
Þessar hugmyndir og takmarkanir knúðu áfram hugsanir þeirra og leiddu þau að dýpri og víðtækari þekkingu á möguleikum efnisins. Ólíkir sérfræðingar í handverki veittu þeim handleiðslu í fjölbreyttum aðferðum, allt frá tágavefnaði að japanskri eld-húðunar aðferð. Internetið veitti þeim svo innsýn í vísindarannsóknir og húsráð frá öllum heimshornum. Í framhaldinu nýttu þau þá þekkingu sem þau höfðu aflað sér og fóru út fyrir það sem tíðkast í hefðbundnum tréiðnaði. Þau greindu tréð niður í öreindir sínar og með því að blanda þeim svo saman á ólíkan hátt mynduðu þau ný efni með ólíka eiginleika. 

Við tilraunir sínar nýttu þau brennslu, suðu og eimingu auk handverksins sem þau höfðu lært. Sem dæmi um afurðir eru litarefni, reipi, lím, pappír, teiknikol, salt og ilmefni. 

Í lok námskeiðsins miðluðu þau rannsóknum sínum í myndbandi, bók og uppsetningu á sýningu.

Nemendur á námskeiðinu:
Birta Rós Brynjólfsdóttir
Björn Steinar Jóhannesson
Emilía Sigurðardóttir
Johanna Seelemann
Kristín Sigurðardóttir
Theodóra Mjöll Skúladóttir
Jack Védis Pálsdóttir

Vefsíða verkefnisins með nánari upplýsingum og ljósmyndum

willow1.jpg
willow2.jpg
willow3.jpg
willow4.jpg
willow5.jpg
willow6.jpg
willow8.jpg
willow9.jpg
willow10.jpg