Föstudaginn 29.janúar fór fram vetrarútskrift hjá Listaháskólanum. Að þessu sinni útskrifuðust fimm nemendur.  Þrjár úr tónlistardeild, ein úr listkennsludeild og ein úr sviðslistardeild.

Hér fyrir neðan er ávap rektors í tilefni af útskriftinni.

Kæru nemendur, kennarar og aðrir gestir, verið þið hjartanlega velkomin!

I

Eins og þið sjáið, þá er vetrarútskrift fremur látlaus athöfn miðað við þá sem blásið er til á vorin þegar meginþorri útskriftarnema fær skírteini sín afhent. Látleysið er þó ekki mælikvarði á vægi því þótt hópurinn sé smár, er útskriftardagur eigi að síður stórviðburður í lífi þeirra sem hlut eiga að máli

 

II

Í því umhverfi sem við þekkjum í þessum háskóla, rétt eins og öðrum, vita allir af hverju útskrift er slíkur áfangi. Við vitum hvaða tæki og tól þekking færir okkur; með hvaða hætti við verðum hæfari við að styrkja okkar eigin upplag, greina og rannsaka, byggja upp og leggja okkar af mörkum til samfélagsins – til menningarinnar og listarinnar. Allt fyrir tilstilli þekkingar og þeirra þjálfunar sem af henni leiðir. Gildir þá einu hvort ætlun okkar er að vinna með skapandi ferli sem listamenn, sem kennarar eða á hverjum þeim vettvangi öðrum sem lífið leiðir okkur inn á.

Ég geri þetta að umtalsefni hér vegna þess að það eru ekki nema þrír dagar síðan umræða um það hvort háskólagráður hefðu gengisfallið vaknaði í samfélaginu. Og það á tímum þar sem ætla mætti að sú fjárfesting sem einstaklingar, ekki síður en samfélagið allt, hefur lagt í háskólamenntun, ætti að vera löngu búin að sanna gildi sitt.

Nú ætla ég ekki að draga úr vægi uppbyggilegrar gagnrýni á háskólasamfélagið – það er gott að búa í samfélagi þar sem spyrja má spurninga og reifa efasemdir. Við verðum eigi að síður að vera vakandi þegar vegið er að menntuninni; að grundvallarstoðum farsældar og sameiginlegrar uppbyggingar þeirra innviða er móta okkar menningarlega, félagslega og efnahagslega umhverfi.

Við þurfum að taka skýra afstöðu hvað það varðar að háskólapróf á borð við það sem þið takið með ykkur út í lífið í dag, er ekki skálkaskjól sem hægt er að skýla sér á bak við í ráðningarferlum eða á ferilskrám. Háskólaprófið er raunverulegur prófsteinn á þekkingu, færni, öguð vinnubrögð og gangrýna hugsun. Það er grunnur að frekari þróun á tilteknu sviði, lykill að áframhaldandi þroska þeirra sem eiga framtíðina fyrir sér.

III

Í þessu samhengi langar mig einnig til að vara við þeim hugsunum sem of oft eru teknar sem sjálfsagðar í umræðu um háskólastigið – að beina eigi nemendum inn á vissar brautir frekar en aðrar, á forsendum framboðs og eftirspurnar. Vísa ég í því samhengi til Páls Skúlasonar heimspekings, og eins helsta sérfræðings okkar um samfélagslegt virði háskóla, sem sagði m.a.: “Í háskóla erum við sem sagt ekki komin til þess eins að afla okkur tiltekinnar kunnáttu eða þekkingar sem á að gera okkur færari um að leysa tiltekin vandamál eða vinna ákveðin störf í þjóðfélaginu. Háskólamenntuninni er ætlað að gera okkur hæfari til að skynja og skilja lífið í heild sinni, hugsa skýrari og dýpri hugsanir, verða að þroskaðri manneskjum sem leggja sitt af mörkum til að gera mannlífið fegurra og betra. “

Það sem Páll setur fram felur í sér háleitar hugsjónir fyrir samfélagsins hönd, ekki síður en einstaklingsins. Miðað við þær hættur sem ég nefndi hér að ofan lifum við á tímum þar sem það er brýnna en oft áður að vera háleitur, því ekki getum við gert minni kröfur en þessar eigi mennskan að blómstra.

IV

Með þeim orðum hvet ég ykkur til að taka við prófskírteinum ykkar með því viðhorfi að í þeim felist viðurkenning á skilningi ykkar og áræði.

Að lokum vil ég  óska ykkur öllum hjartanlega til hamingju með daginn með þeirri ósk að áfanginn nýtist ykkur sem best!