Áhrifamikil verkefni nemenda og kennara við Hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskólans hafa að undanförnu vakið athygli út fyrir landsteinana.

HönnunarMars

Nemendur og kennarar námsbrautar í vöruhönnun fengu mikla athygli á HönnunarMars í ár. Meðal annars voru birtar þrjár greinar um verk þeirra í hinu virta hönnunar- og arkitektúrtímariti Dezeen.
Ein greinin var um verkefni nemenda á þriðja ári sem ber heitið Willow project eða Úr viðjum víðis sem var unnið af nemendum á þriðja ári í vöruhönnun í Listaháskóla Íslands í samstarfi við Skógræktarfélag Reykjavíkur. Í verkefninu var lögð áhersla á að umbreyta trjátegundinni víði á margvíslegan máta og búa þannig til fjölbreytt hráefni með ólíka eiginleika.
Önnur var um verk Ara Jónssonar, nemanda á fyrsta ári sem tók þátt í sýningunni Drifting Cycles í Gróttuvita en þar sýndi hann staðgengil plastflöskunnar sem hann skóp úr þörungum og byrjar að brotna niður um leið og notkun flöskunnar lýkur.
Þriðja fréttin fjallaði um um brennisteinskeramík Garðars Eyjólfssonar, lektors og fagstjóra námsbrautar í vöruhönnun, sem nefnist sulphur archive.
Fyrr á árinu hafði verk Garðars einnig ratað á síður hönnunartímaritanna en Icon valdi það til dæmis sem eitt af athyglisverðustu verkum Stockholm Furniture Fair.
 

Together – samfélagshönnun

citizendesign.jpg

Hönnuðurinn og kennarinn Elizabeth Resnick gaf nýverið út bókina Developing Citizen Designers sem fjallar um samfélagslega ábyrga hönnun en í henni er meðal annars að finna grein um Together-námskeið Hönnunar- og arkitektúrdeildar. Í námskeiðinu leiða mastersnemar í hönnun hópa BA nemenda sem taka fyrir margvísleg samfélagsleg viðfangsefni og vinna að þeim út frá aðferðafræði hönnunar.

Hér má finna upplýsingar um bókina: impactdesignhub.org/2016/02/24/new-book-on-learning-socially-responsible-design/