Ferðin var afar atburðarík og velheppnuð og móttökur heimamanna framúrskarandi. Tríóið kom fram með efnisskrá  með verkum og útsetningum m.a. eftir Áskel Másson og Þorkel Sigurbjörnsson, Atla Heimi Sveisson, Snorra Sigfús Birgisson og Martial Nardeau. Leikið var víðast í fallegum, nýlegum tónleikahöllum og sóttu tónleikana að jafnaði fleiri hundruð manns. Tríóið kom fram með efnisskrá  með verkum og útsetningum m.a. eftir Áskel Másson og Þorkel Sigurbjörnsson, Atla Heimi Sveisson, Snorra Sigfús Birgisson og Martial Nardeau. Í lok tónleika þyrptust áheyrendur um flytjendur og báðu um eiginhandaráritanir og keyptu geisladiska.

Ferðin hófst í Shanghai með tónleikum fyrir Menningarvinafélag Shanghai við erlend ríki, þar sem einnig komu fram kínverskir listamenn. Aðrir tónleikar í  sömu borg voru á vegum Shanghai Normal University sem er 40.000 nemanda skóli með fleiri þúsund tónlistarnemendum. Þar var haldinn master klass og síðan leikið á tónleikum þar sem einnig kom fram afar litríkur flautukór skólans. Dvalið var tæpa viku í Shanghai,  borgin og umhverfið skoðuð, sóttir tónleikar á Shanghai Conservatory New Music Festival og Music China Expo heimsótt. Frá Shanghai var haldið til Huzhou, þar sem meðlimir tríósins héldu tónleika og kenndu nemendum við tónlistarskóla. Haldnir voru tónleikar í Hefei, Chongquin, Changsha, Zhuji  og að lokum þrennir tónleikar í Peking en þar hélt tríóið m.a. tónleika í Þúsaldarhöll Beijing háskóla og í glæsilegum tónleikasal Beihang háskóla. Ferðinni lauk með því að tríóið kom fram á samkomu í tilefni af útgáfu Ferðaminninga Jóhannesar úr Kötlum á kínversku, en Jóhannes sótti Kína heim árið 1951. Þar var jafnframt minnst 60 ára afmæli KÍM, kinversk-íslenska menningarfélagsins.

Ferðin var styrkt af tónlistarsjóði og Útón en umboðsskrifstofa í Beijing annaðist skipulagningu tónleikaferðarinnar í Kína fyrir utan Shanghai, þar sem tríóið var í boði Shanghai Normal University og Menningarvinafélags Shanghai við erlend ríki.