Útskriftarsýning MA nema við LHÍ í Gerðarsafni, Kópavogi, framlengd
Sýningin stendur til og með 14.maí
 
Útskriftarsýning meistaranema í hönnun og myndlist við Listaháskóla Íslands verður framlengd til laugardagsins 14. maí en sýningin hefur hlotið mjög góðar viðtökur og heimsóknir hafa nærri tvöfaldast. Á sýningunni gefst færi á að sjá afrakstur tveggja ára háskólanáms þar sem hönnuðir og myndlistarmenn hafa þróað og styrkt rannsóknir sínar á viðkomandi fagsviðum. Áhersla er lögð á skapandi og greinandi hugsun sem nýtist við framsækin verkefni á sviðum hönnunar og myndlistar á Íslandi. Útskriftarnemendur sitja yfir sýningu sinni á opnunartímum í Gerðarsafni og spjalla við gesti um verkin, sýninguna og námið.

Alþjóðlegt meistaranám í myndlist og hönnun hófst í Listaháskóla Íslands haustið 2012 og er þetta því þriðji árgangur útskriftanema námsbrautanna sem setur fram lokaverkefni sín til opinberrar sýningar og MA varnar. Í MA námi í myndlist er nemendum skapaður vettvangur til að dýpka og auka þekkingu sína á sviði samtímamyndlistar, styrkja persónulega sýn og tengja listsköpun sína við fræðilegar forsendur fagsins. Í MA námi í hönnun er sjónum beint að aðkallandi viðfangsefnum í samtímanum en í auknu mæli er yfirlýst markmið MA hönnunarbrautarinnar að leiða hugsunina, breyta hugarfari og hafa jákvæð áhrif á það hvernig fólk lifir.