Á hverju ári fer fram keppni ungra einleikara sem Sinfóníuhljómsveit Íslands stendur að í samvinnu við Listaháskóli Íslands. Keppnin er opin tónlistarnemendum á háskólastigi, óháð því hvaða tónlistarskóla þeir sækja en dómnefnd keppninnar skipar tónlistarfólk í fremstu röð. Alls tóku 14 nemendur þátt í keppninni að þessu sinni en dómnefndin valdi fjóra sigurvegara til að koma fram með Sinfóníuhljómsveitinni í Eldborgarsal Hörpu.

Þátttakendur komu frá tónlistardeild Listaháskóla Íslands, Tónlistarskólanum í Reykjavík, Söngskóla Sigurðar Demetz, Conservatorium van Amsterdam , Söngskólanum í Reykjavík og Barratt Due tónlistarháskólanum í Osló.

Fjórir ungir einleikarar urðu fyrir valinu:

  • Baldvin Ingvar Tryggvason, klarinettunemandi hjá tónlistardeild LHÍ
  • Björg Brjánsdóttir, flautunemandi úr Norges Musikkhøgskole
  • Rannveig Marta Sarc, fiðlunemandi úr Tónlistarskólanum í Reykjavík
  • Sölvi Kolbeinsson, saxófónnemandi úr Tónlistarskólanum í Reykjavík

Dómnefnd skipuðu Karólína Eiríksdóttir, tónskáld, sem jafnframt var formaður nefndarinnar, Bernharð Wilkinson, hljómsveitarstjóri, Ármann Helgason, klarinettuleikari, Bergþór Pálsson, söngvari, Auður Hafsteinsdóttir, fiðluleikari og Peter Máté píanóleikari.

Tónleikarnir með Sinfóníuhljómsveit Íslands verða haldnir í Eldborgasal í Hörpu fimmtudaginn 16. janúar 2014 kl. 19:30.

Á ljósmyndinni eru þeir tónlistarnemendur sem valdir voru í síðustu keppni á tónleikunum í Hörpu.