Á hverju ári fer fram keppni ungra einleikara sem Sinfóníuhljómsveit Íslands stendur fyrir í samvinnu við Listaháskóla Íslands en Listaháskólinn er framkvæmdaraðili keppninnar. Keppnin er opin nemendum sem stunda nám í hljóðfæraleik eða söng á 1. háskólastigi (bakkalár), óháð því hvaða skóla þeir sækja, og fá þeir hlutskörpustu að leika einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Eldborgarsal Hörpu.

Keppnin fer fram laugardaginn 12. nóvember 2016 og tónleikar vinningshafa með Sinfóníuhljómsveit Íslands eru þann 12. janúar 2017.

Opnað verður fyrir umsóknir 1. september og rennur umsóknarfresturinn út þann 30. september.

Umsóknum skal skilað rafrænt á netfangið: elinanna [at] lhi.is eða á skrifstofu Tónlistardeildar LHÍ Sölvhólsgötu 13.

Nánar um keppnina og reglur hennar hér.

"Samstarf Listaháskólans og Sinfóníuhljómsveitar Íslands í tengslum við unga einleikara hefur verið afar gjöfult og er þetta einn af hápunktum ársins hjá Listaháskólanum. Einleikarakeppni LHÍ og SÍ gefur nemendum einstakt tækifæri til þess að kynnast atvinnumennsku og fara í gegnum þá vinnu sem fylgir því að koma fram á tónleikum sem þessum. Stemningin á tónleikum ungra einleikara ogSinfóníuhljómsveitar Íslands er einstök og til marks um mikinn áhuga ungs fólks á tónlistarlífinu sem okkur í Listaháskólanum ber að rækta og styðja við í okkar starfi." Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor.