Laugardaginn 12. nóvember fór fram hin árvissa samkeppni Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Listaháskóla Íslands um að fá að koma fram með hljómsveitinni. Þátttakendur voru 12 talsins og stunda þeir allir söng- eða hljóðfæranám á bakkalárstigi.

Dómnefnd var skipuð þeim Unu Sveinbjarnardóttur, 3. konsertmeistara Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sem var formaður nefndarinnar, Sigurði Bjarka Gunnarssyni, sellóleikara,  Signýju Sæmundsdóttur, söngkonu, Símoni H. Ívarssyni, gítarleikara, Einari Jónssyni, trompetleikara og Daða Kolbeinssyni, óbóleikara.

Dómnefnd valdi fjóra sigurvegara að þessu sinni sem koma munu fram á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Eldborgarsal Hörpu þann 12. janúar á næsta ári. 

Þetta eru þær:

Auður Edda Erlendsdóttir, klarínettuleikari

Herdís Mjöll Guðmundsdóttir, fiðluleikari

Hrafnhildur Marta Guðmundsdóttir, sellóleikari og

Jóna G. Kolbrúnardóttir, söngkona.

 

Listaháskóli Íslands óskar sigurvegurunum hjartanlega til hamingju og þakkar jafnframt öllum þeim hæfileikaríku söngvurum og hljóðfæraleikurum sem tóku þátt í þessari erfiðu keppni.

 

Myndin með fréttinni er af Heiðdísi Hönnu Sigurðardóttur, en hún kom fram á tónleikunum Ungir einleikarar með Sinfóníuhljómsveit Íslands í janúar 2016.

Tónleikarnir verða fimmtudaginn 12. janúar í Eldborgarsal Hörpu og hefjast kl. 19:30.  Stjórnandi verður Petri Sakari.