Björn Leó Björnsson hlaut þriggja vikna styrk til að starfa sem aðstoðarmaður listakonunnar Yael Bartana á Berlínar tvíæringnum sem fram fer þar í borg dagana 27.apríl - 1.júlí n.k. Verk listakonunnar er umfangsmikil „sýndar-ráðstefna“ sem mun eiga sér stað í Hebbel Am Ufer leikhúsinu og galleríinu Kunst-Werke.  Raunverulegum og ímynduðum spurningum verður kastað fram um Ísrael og mið-Austurlönd og gerð verður krafa um að 3.3 milljónir Gyðinga snúi aftur til Póllands.  Björn Leó mun taka þátt í að þróa hugmyndir listakonunnar áfram, vinna að dramatúrgíu og aðstoða við að miðla þeim í sviðssetningu. Verkefnið snýst um að gera sviðsverk úr ráðstefnu og því verður lögð áhersla á útlit bæði hvað varðar sviðsmynd og heildarútlit sýningarinnar.


Ásrún Magnúsdóttir hlaut styrk til að starfa í fimm vikur á TransEuropa listahátíðinni sem fram fer í Hildesheim í Þýskalandi.  TransEuropa er evrópskt leiklistar- og sviðslistaverkefni sem hefur það markmiði að koma á framfæri nýju sjálfstætt starfandi sviðslistafólki og að efla alþjóðasamvinnu innan fagsins.  Í ár varð Ísland fyrir valinu sem eitt samstarfsland verkefnisins, ásamt Litháen, Póllandi og þýskumælandi löndum.  Ásrún mun taka þátt í verkinu „Partner ship“ en stjórnendur þess leituðu uppi sviðslistamenn á Íslandi til að vinna með þremur, ungum sviðslistamönnum frá Þýskalandi.  Ásrún varð fyrir valinu og er eini dansarinn sem tekur þátt í verkinu. TransEuropa er að þróast í þá átt að verða árviss stórviðburður á sviði sviðslista í bæði evrópsku og alþjóðlegu samhengi.

Listaháskólinn óskar Birni Leó og Ásrúnu til hamingju með styrkinn og óskar þeim góðs gengis í verkefnum sínum.