Í ágúst sl. lauk tveggja ára stefnumiðaða samstarfsverkefninu NAIP: Innovation in Higher Music Education, og hafa nú afurðir verkefnisins verið birtar á vefsíðu NAIP námsins, en afurðirnar má nálgast hér.

Verkefnið var styrk af Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins með það að markmiði að þróa námsefni í tónlistarkennslu á háskólastigi og aðlaga það að hlutverki tónlistarmanna nútímans. Þróunin var byggð á námsefni meistaranámsins Sköpun, miðlun og frumkvöðlastarf (NAIP) sem er sniðin fyrir tónlistarmenn sem vilja móta sinn eigin starfsgrundvöll og taka að sér leiðtogahlutverk.

Tónlistarnám í gegnum vefinn

Einn vinnuhópa verkefnisins skoðaði tækifærin sem felast í því að nota netið í tónlistarkennslu með því að þróa námskeið sem yrði prufukeyrt á verkefnatímabilinu. Hópurinn þróaði námskeiðið Connected Improvisation sem gaf nemendum frá fimm háskólum í fjórum löndum tækifæri til þess að vinna saman að spunatengdum verkefnum í gegnum netið. Námskeiðið hófst á fimm daga hraðnámskeiði í janúar 2016 í Den Haag, þar sem allir nemendur hittust. Eftir það fór námskeiðið fram í 6 netvinnustofum þar sem nemendurnir voru staðsettir í sínum heimaskólum. Jafnframt unnu nemendur að skapandi verkefnum í hópum. Vinnuhópurinn þróaði og skipulagði námskeiðið, ásamt því að skrásetja ferlið sem er birt á NAIP vefnum með myndböndum, texta, hljóðdæmum og myndum, sem eiga að veita lesanda innsýn inn í hvernig námskeiðið fór fram, kosti þess og galla og hvaða lærdóm má draga af ferlinu.

Hér má nálgast gagnagrunn um netvinnustofurnar.

Hér að neðan má sjá tvö myndbönd um ferlið, það fyrra um hraðnámskeiðið í Den Haag og það seinna um netvinnustofurnar: