Lokadagur námskeiðsins Tálgað og tengt við náttúruna var þriðja september.  Námskeiðið endaði á dagsferð í Kjós þar sem hópurinn naut þess að dvelja daglangt í skógi og fá að upplifa hann á fjölbreyttan hátt með öllum skynfærum. Kennari var Ólafur Oddsson, betur þekktur sem Óli Skógur. 

Á námskeiðinu lærðu nemendur grunnhandbrögð við tálgun úr ferskum við, fengu fræðslu um skógarnytjar í nærumhverfinu, lærðu að þekkja nokkrar helstu trjátegundir og tengja saman ytra form og innri gerð trjánna.

Þau kynntust því hvaða áhrif mismunandi ræktunaraðstæður og umhirða trjáa hafa á gæði og form viðarins. Í námskeiðinu voru kynntar hugmyndir um útikennslu og gildi þess að vinna með tálgun úr náttúrulegu efni sem leið til sjálfstyrkingar og samtengingu handa og hugar. Þá var farið í gönguferð með heimspekingi sem mun fjalla um náttúruna út frá fagurfræðilegu sjónarhorni.