Sýningin dregur saman verk eftir níu íslenska samtímalistamenn ásamt abstraktverkum Ásmundar Sveinssonar (1893-1982). Á sýningunni er vakin athygli á efnistökum Ásmundar frá sjöunda áratugnum og samhljóm hans við starfandi listamenn í dag. Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni eiga það sameiginlegt að vinna þrívíð verk eða abstrakt rýmisverk. Þeir notast gjarnan við óhefðbundinn efnivið og leyfa efni, formi og rými að stýra efnistökum og lokaútkomu verka sinna.

Listamenn sem eiga verk á sýningunni ásamt Ásmundi Sveinssyni eru Áslaug Í. K. Friðjónsdóttir, Baldur Geir Bragason, Björk Viggósdóttir, Hrafnhildur Halldórsdóttir, Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir, Ragnar Már Nikulásson, Sólveig Einarsdóttir, Þór Sigurþórsson og Þuríður Rós Sigurþórsdóttir.

Ásmundur var frumkvöðull í íslenskri höggmyndalist og hafði víðtæk áhrif á íslenska menningu. Hann nam klassíska höggmyndalist og vann í hefðbundin efni framan af en á síðari hluta sjötta áratugarins sótti hann í efnivið sem þótti óhefðbundinn hér á landi. Fundinn efniviður eins og rekaviður og brotajárn fór að verða áberandi í verkum hans og stýrði gjarnan útkomu einstakra verka. Ásmundur byrjaði einnig að huga að innra og ytra rými verka sinna og með hvaða hætti þau virkjuðu rýmið sem umlukti þau. Því verkið er ekki bara efnið sjálft heldur ljósið sem leikur um það. Hann sagði sjálfur: „Ég hef leyft mér að gera non-fígúratífa mynd af rafmagninu, því ég hef aldrei séð fígúratíft rafmagn“.

Sýningarstjóra eru Klara Þórhallsdóttir og Kristín Dagmar Jóhannesdóttir.