Framkvæmdastjóri situr í framkvæmdaráði skólans og tekur þátt í stefnumótun hans ásamt öðrum yfirstjórnendum. Framkvæmdastjóri heyrir undir rektor. Skilgreining á starfi framkvæmdastjóra er samkvæmt nýju skipuriti sem tekur gildi 1. janúar næstkomandi.

Menntun og hæfniskröfur:

  • Meistarapróf í viðskiptafræði eða jafngild menntun og reynsla
  • Góð þekking á fjármálum, áætlanagerð og verkefnisstjórnun
  • Reynsla af rekstri fyrirtækis eða stofnunar
  • Þekking á háskólastarfi og innviðum háskóla
  • Lifandi áhugi á listum og menningarmálum

Starf framkvæmdastjóra er ábyrgðarmikið starf sem felur í sér fjölbreytt verkefni á ólíkum sviðum háskólans. Starfið krefst lipurðar í samskiptum, skýrrar rökhugsunar, góðra hæfileika til greiningar, og skilnings á flóknu samspili umhverfis og innra starfs. Framkvæmdastjóri þarf að vera dugmikill til verka og ósérhlífinn. Um er að ræða spennandi starf í ungum háskóla í hraðri uppbyggingu.

Umsóknum skal skila á aðalskrifstofu skólans að Þverholti 11, Reykjavík, eigi síðar en fimmtudaginn 4. október næstkomandi. Farið er með nöfn umsækjenda sem trúnaðarmál. Skólinn áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.

Listaháskóli Íslands er sjálfseignarstofnun með viðurkennningu á
fræðasviðinu listir. Skólinn starfar í fimm deildum: myndlistardeild,
hönnunar- og arkitektúrdeild, tónlistardeild, leiklistar- og dansdeild,
og listkennsludeild. Nemendur eru um 480, þar af einn fimmti á
meistarastigi. Skólinn starfar á þremur stöðum í Reykjavík: Þverholti,
Sölvhólsgötu, og Laugarnesvegi. Rektor er Hjálmar H. Ragnarsson,
tónskáld.

Upplýsingar um starfið veita: Gunnhildur Arnardóttir gunnhildurarnar [at] ceohuxun.is og Trausti Harðarson traustihardar [at] ceohuxun.is