Námskeiðinu Skapandi flugdrekagerð lauk síðastliðna helgi með skrautlegum lokaverkefnum en flugdrekagerð býður uppá skemmtilega og þverfaglega nálgun í námi.

Nemendur fengu að kynnast sögu flugdrekagerðar- og menningar víðsvegar um heiminn, einnig ýmsum listamönnum sem unnið hafa með flugdreka og lögmál flugdrekanna voru könnuð á öruggan hátt. Á námskeiðinu var áhersla á kennslu 6-13 ára nemanda og tengingar við fög eins og landafræði, náttúrufræði, stærðfræði, listir og hönnun voru kannaðar.

3 tegundir flugdreka voru kynntar og smíðaðar: símaskrárflugdreki (Eddy form), sledflugdreki og þrívíddarflugdreki (Tetrahedron)

Kennari var Arite Fricke en hún lærði skiltagerð sem hefðbundið handverk í Þýskalandi frá 1994-97 og lauk BS gráðu í grafískri hönnun í Fachschule Werbegestaltung í Stuttgart og hefur unnið bæði í Þýskalandi og síðan frá 2004 á Íslandi. Árið 2015 hlaut hún meistaragráðu í hönnun við Listaháskóli Íslands með verkefninu “Hugarflug Playful Workshops” sem hún er að þróa áfram. Sumarið 2016 hlaut hún diplómagráðu í listkennslu við LHÍ. Á undanförnum þremur árum hefur hún rannsakað og fundið ástríðu fyrir menningarheimi flugdreka og listsköpun, lífs- og leikgleði tengda því. Hún hefur kennt flugdrekagerð og skapandi smiðjur fyrir alla aldurshópa undanfarin tvö ár meðal annars í Myndlistaskóla Reykjavíkur, Listasafni Árnesinga og í Búðardal. Arite er að hefja störf sem myndmennta- og flugdrekakennari í grunnskólanum í Reykholti (Biskupstungum) í haust. https://hugarflug.net