Bakland Listaháskóla Íslands auglýsti 16. mars sl. eftir áhugasömum aðilum til að taka að sér stjórnarsetu fyrir hönd Baklandsins í stjórn Listaháskóla Íslands, en Baklandið skipar þrjá af fimm stjórnarmönnum skólans. Ellefu framboð bárust frá einstaklingum með menntun á öllum sviðum sem skólinn starfar á. Var það sérstakt fagnaðarefni hversu faglega sterkir fulltrúar gáfu kost á sér en það ber vott um sterka stöðu skólans meðal fagsviða hans. Við endanlegt val hafði áhrif að enginn af tónlistarsviðinu situr í stjórn skólans, en við val á fulltrúum ber stjórn að gæta að faglegu jafnvægi milli faggreina til samræmis við markmið og þarfir LHÍ hverju sinni. Það var því á endanum einróma niðurstaða stjórnar að skipa Rúnar Óskarsson tónlistarmann í stjórn skólans að þessu sinni. Rúnar er fastráðinn klarinettuleikari við Sinfóníuhljómsveit Íslands ásamt því að stunda tónlistarflutning og kennslu utan hennar. Hann hefur einnig gegnt trúnaðarstörfum fyrir tónlistarmenn, bæði í FÍH og innan Sinfóníuhljómsveitarinnar.

Varamaður hans í stjórn verður Tinna Lind Gunnarsdóttir leikkona og fyrrv. framkvæmdastjóri Reykjavík Dance Festival. Býður stjórnin þau velkomin til starfa og óskar þeim farsældar í störfum sínum fyrir félagið.

Stjórnin þakkar fyrir góð viðbrögð og hug til Listaháskólans.