Fyrirlesturinn var haldinn af leikskólanum Laufskálum í samvinnu við LHÍ, FLÍSS (félag um leiklist í skólastarfi) og RASK (rannsóknarstofa um skapandi skólastarf) menntvísindasvið HÍ og er styrkt af þróunarsjóði skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur.

Rhona var stödd hér á landi í tengslum við verkefnið “Ég get sjáðu mig” sem leikskólinn Laufskálar er með í þróun. Verkefnið gengur út á það að innleiða leiklist inn í starfsemi leikskólans á sem flestum sviðum með áherslu á sjálfstjáningu barnanna og vikulegum tímum í leiklist.

Rhona sagði frá starfsemi Starcatchers, sem sérhæfir sig í listsköpun mjög ungra barna í samvinnu við starfandi listamenn. Hvernig starfsemin var hugsuð í upphafi, þróunina og þau áhrif sem hún hefur haft á skapandi umhverfi í Skotlandi bæði í pólitísku og félagslegu samhengi.

Starcatchers eru samtök, sem hafa verið frumkvöðlar í því að sérhæfa sig í leiksýningum og sköpun fyrir börn á aldrinum 0 - 5 ára og foreldra þeirra, og starfa í Skotlandi.   

,,Við trúum því að yngstu ríkisborgarar Skotlands eigi rétt á því að fá að taka þátt í hágæða leiksýningum og fá tækifæri til að tengjast inn í listrænt ferli sköpunar sem leitt er af framúrskarandi listamönnum sem hafa skilning á þörfum þessa sérstaka áhorfendahóps. Verk okkar miða að því að styrkja og næra skilning barnsins í gegnum skapandi ferli og örvun ímyndunaraflsins.”