Garðar hlaut BA Honours-gráðu í vöruhönnun við Central Saint Martins, University of the Arts í London árið 2009. Þá lauk hann meistaragráðu í samhengisfræðilegri hönnun við Hönnunarakademíuna í Eindhoven árið 2011. Hann hóf störf á þessu ári sem aðjúnkt í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands, en auk þess hefur starfað sem stundakennari við Listaháskólann, Myndlistaskólann í Reykjavík og Iðnskólann í Hafnarfirði. Þá vann Garðar fyrir Iðnaðarráðuneytið og Hönnunarmiðstöð Íslands að rannsóknarvinnu fyrir gerð Hönnunarstefnu fyrir Ísland.

Verk Garðars hafa verið valin á alþjóðlegar sýningar m.a. í Slóveníu og Mílanó, auk þess sem útskriftarverk hans var valið framúrskarandi nemendaverk árið 2011. Þá birti tímaritið Volume Magazine meistararitgerð hans, “The New System”, árið 2011.

Í álitsgerð dómnefndar kemur fram að Garðar hafi áunnið sér góðan skilning á tengslum akademísks og faglegs starfs, rannsókna, hönnunar og kennslu, þrátt fyrir stuttan starfsferil. Hann hafi skýra sýn á þróun háskólanáms í vöruhönnun, og búi yfir yfirgripsmikilli þekkingu á straumum og stefnum í hönnun.

Garðar tekur við starfinu 1. ágúst.