Birna lagði stund á fornám við Myndlistaskólann í Reykjavík áður en hún hóf nám í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands. Þaðan útskrifaðist hún með BA-gráðu árið 2006. Síðar hóf hún nám við Háskólann í Reading og lauk þaðan MA-gráðu í bókahönnun árið 2010.

Í álitsgerð dómnefndar kemur fram að Birna hafi umtalsverða reynslu af kennslu og mótaða sýn á kennsluhætti, en hún hefur verið stundakennari við Listaháskóla Íslands allt frá útskrift við skólann. Þá hafi hún sterka sérhæfða þekkingu á letri og bókagerð, og að verk hennari beri vitni um rannsóknarvinnu og vandvirkni. 

Birna hefur að baki fjölbreytta starfsreynslu í faginu, ýmist sem sjálfstætt starfandi eða sem vertaki, m.a. hjá Íslensku auglýsingastofunni, Fraser Muggeridge studio í London, Vinnustofu Atla Hilmarssonar og auglýsingastofunni Fabrikkunni. Verk hennar hafa verið til sýnis á opinberum vettvangi í Kaupmannahöfn, London og á Íslandi. Þá ritstýrði hún Íslenskri sjónabók, sem kom út árið 2009 í samstarfi Listaháskólans, Heimilisiðnaðarfélagsins og Þjóðminjasafnsins. Sem stendur vinnur hún að þýðingu bókarinnar Das Detail in der Typografie eftir Jost Hochuli, í samstarfi við Gunnar Þór Vilhjálmsson, leturhönnuð. 

Birna hefur hlotið viðurkenningu frá Félagi íslenskra teiknara (FÍT) fyrir bókahönnun, auk þess sem hún var starfandi á Vinnustofu Atla Hilmarssonar þegar stofan hlaut Menningarverðlaun DV 2008 og  á Fabrikkunni þegar henni var veitt ÍMARK viðurkenning 2007. Þá hefur hún tekið sæti sem dómari í aðaldómnefnd fyrir FÍT verðlaunin og sinnt almennri dómgæslu fyrir sömu verðlaun.

Birna tekur við starfinu 1. ágúst.