Linda hefur yfirgripsmikla þekkingu á straumum og stefnum í hönnun og býr auk þess yfir víðtæku alþjóðlegu tengslaneti í faginu. Hún á að baki langan starfsferil þar sem hún hefur starfað ýmist sjálfstætt eða sem fatahönnuður og búningahönnuður fyrir ýmis hönnunarfyrirtæki á alþjóðavettvangi, s.s. Martine Sitbon, Rue du Mail, Anna Molinari, Marithé+Fracoise Birgaud, Byblos og hjá Borgarleikhúsinu. Frá árinu 2009 hefur hún verið listrænn stjórnandi og hönnuður hjá Scintilla textile collection, eigin hönnunarfyrirtæki. Verk hennar hafa verið sýnd á opinberum vettvangi hérlendis sem og í Evrópu og Bandaríkjunum, hvort tveggja hönnunarsýningum og sölusýningum. Hún hefur hlotið viðurkenningar og styrki fyrir verk sín, m.a. frá Aurora hönnunarsjóði, Meningarverðlaunum DV, Smirnoff International Fashion Award og Tækniþróunarsjóði. Þá hefur verið fjallað opinberlega um verk hennar hér á landi og erlendis. Hún er núverandi stjórnarmaður í Reykjavík Fashion Festival, auk þess sem hún situr í fagráði Fatahönnunarfélags Íslands.

Linda hlaut Advanced Diploma í Fatahönnun frá Studio Berçot, Fashion Design School í París árið 1997. Þá útskrifaðist hún með lokapróf í textíl frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1995.

Linda hefur starfað sem aðjúnkt og fagstjóri námsbrautar í fatahönnun við Listaháskóla Íslands frá árinu 2000. Hún hefur byggt upp nám í fatahönnun á háskólastigi hér á landi, stjórnað námsbrautinni frá upphafi og útskrifað um 100 nemendur. Í álitsgerð dómnefndar kemur fram að hún hafi byggt upp víðtækt tengslanet fyrir nemendur skólans í iðnaðinum hérlendis og erlendis og gætt þess að þeir hljóti starfsreynslu hjá fremstu fyrirtækjum heims.

Linda tekur við starfinu frá 1. ágúst.