Fimm umsækjendur voru um starfið. Þriggja manna dómnefnd skipuð af stjórn skólans mat fjóra þeirra hæfa til að gegna starfinu miðað við starfssvið og skyldur eins og starfið var auglýst af hendi skólans.

Sigrún stundaði fyrrihlutanám í arkitektúr við arkitektúrdeild Tækniháskólans í Mílanó og við arkitektúrdeild Oxford Brookes háskólans í Oxford á Englandi. Síðari hlutann stundaði hún við Arkitektúrháskóla Arkitektasamtakanna (AA) í London þaðan sem hún lauk lokaprófi 2001. Auk þess stundaði hún nám í verkefnastjórnun í mannvirkjagerð við Bartlett háskólann í London 2007. Sigrún fékk fullgild starfsréttindi sem arkitekt 2006.

Ferill Sigrúnar hefur fyrst og fremst verið innan háskólasamfélagsins, en hún hefur starfað sem kennari og fagstjóri í arkitektúr við háskóla í Bretlandi og við Listaháskóla Íslands.  M.a. hefur hún verið fagstjóri og lektor í innanhússhönnun og landslagshönnun við Buckinghamshire New University 2000 – 2003 og fagstjóri og dósent í rýmishönnun við sama háskóla 2003 – 2007. Síðan 2007 hefur hún gegnt starfi fagstjóra í arkitektúr við Listaháskóla Íslands og með lektorsstöðu frá 2009.  Sigrún hefur jafnframt verið verkefnisstjóri um þróun meistaranáms við LHÍ. Þá hefur hún verið gestakennari og prófdómari í lokaverkefnum við ýmsa aðra háskóla í Evrópu.

Eftir Sigrúnu liggja rannsóknir og ýmis fræðileg verk á sviði arkitektúrs. Sérsvið hennar og viðfangsefni hverfast einkum um borgarfræði með áherslu á samspil einka- og almenningsrýma annars vegar og hins vegar  samhengi byggðar og náttúru. Meðal verkefna hennar má nefna verkefnið Vatnavini/Vatnavini Vestfjarða, sem beinist að uppbyggingu baðmenningar og heilsutengdrar ferðaþjónustu, en Sigrún er þar virkur þátttakandi og einn stofnenda verkefnisins. Fyrr á árum starfaði Sigrún að hönnun bygginga  og innanhússhönnun á ýmsum virtum arkitektastofum, einkum þó í Bretlandi, en ennfremur liggja eftir hana sjálfstæð verk á því sviði hér á Íslandi.

Þá hefur Sigrún látið talsvert að sér kveða í almennri umræðu um hönnun og skipulagsmál, m.a. með fyrirlestrum og erindum, og með þátttöku í fjölbreyttu nefndarstarfi á sínu sviði.

Sigrún tekur við starfi deildarforseta frá og með 1. ágúst.