Þann 5. nóvember 2016 kl 15:00 opnar sýningin Plastfljótið í Snæfellsstofu, gestastofu Vatnajökulþjóðgarðs.

Þar verður sýndur afrakstur listasmiðja í þátttökulistsköpun sem haldnar hafa verið víðs vegar síðustu misseri bæði á Austurlandi og í Rovaniemi, Lapplandi. Um er að ræða sameiginlegt listaverk þar sem margir hafa lagt hönd á plóg og sýndar verða ljósmyndir af ferli verkefnisins. Flutt verða nokkur tónlistaratriði ungra og efnilegra tónlistarmanna úr fjórðungnum og boðið verður upp á léttar veitingar. Síða viðburðarins á Facebook.

Listrænn stjórnandi verkefnisins er listakonan Ólöf Björk Bragadóttir, kennslustjóri Listnámsbrautar ME, www.loabjork.com. Ólöf Björk útskrifaðist frá Listkennsludeild LHÍ í vor og nánari upplýsingar um tilurð sýningarinnar má sjá í meistarverkefni hennar: Plastfljótið - listmenntun til sjálfbærni. 
 

„Markmið verkefnisins er að benda á leiðir um það hvernig má nýta listsköpun til þess að vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi sjálfbærrar þróunar og reyna með því að leita leiða til að minnka vistspor okkar hér á jörðu og vernda náttúruna. Með verkefninu er leitast við að vekja fólk til umhugsunar um ofnotkun plastumbúða og um leið hvatning til aðgerða í þeim málum“.