Gallaklæðnaður og miðlun

Nemendur á þriðja ári í fatahönnun fengust við afar spennandi verkefni í haust. Micheal Kampe, sem starfar sem yfirhönnuður „denim“-klæðnaðar hjá Hugo Boss í Þýskalandi, kom sem gestakennari og var með nemendum fyrstu vikuna þar sem þau hönnuðu flíkur fyrir viðkomandi fyrirtæki úr gallaefni. Katrín María Káradóttir, fagstjóri fatahönnunar, fékk Michael Kampe fyrst hingað til lands sem prófdómara útskriftarverkefna í fatahönnun árið 2015.  Kampe hefur sérhæft sig í hönnun á gallafatnaði og þrátt fyrir að hafa verið dómari verkefna- og í fatahönnunarkeppnum víða um heim taldi hann sig finna hér sérstakan og áhugaverðan tón. Því kom fljótt upp sú hugmynd að hann kæmi hingað síðar til að kenna.  Úr varð að hann kenndi heilt námskeið með Dainius Bendikas aðjúnkt í fatahönnun.

 

Tískuhús í kreppu

Sjóndeildarhringur verkefnisins var sú mikla kreppa sem tískuhús dagsins í dag glíma við í kjölfar þeirra byltingar sem orðið hefur á markaðssetningu og ímyndarsköpun með tilkomu öflugra samfélagsmiðla. Fyrsta verkefni nemenda var að velja sér þekkt tískuhús á borð við Chanel eða Armani og greina þá þætti sem stuðlað hafa að velgengni þeirra í gegnum tíðina. Því næst áttu nemendur að reyna að koma auga á veikleikana í hönnun slíkra fyrirtækja og finna launsir sem gætu komið að notum í síbreytilegum heimi sem mörg tískuhúsana hafa átt erfitt með að fóta sig í á síðastliðnum árum.

Katrín María segir að þetta sjónarhorn í verkefninu sé afar góður undirbúningur fyrir starfsferil. „Það er hollt að vinna inn í mismunandi heima og að hafa fjölbreytta möppu,“ segir hún og bætir við:  „Við leggjum áherslu á að nemendur þrói sköpunargáfu sína til margvíslegra verka enda ljóst að framtíðarstörf þeirra geta verið af ýmsum toga.“

 

Úrvals efni – spennandi úrvinnsla

Þegar nemendur höfðu greint hönnun einhverra stóru tískuhúsanna og fléttað eigin hönnunarlausnum saman við ímynd þess fyrirtækis sem þau völdu sér útfærði hver nemandi eina yfirhöfn í gallaefni sem ítalski hágæða gallaefnaframleiðandinn Candiani lagði til verkefnisins. Mikil hefð hefur myndast fyrir notkun efnisins, það er að finna í mikið af góðum og hefðbundum vinnufatnaði en er einnig vinsælt á meðal heimsþekktra hönnuða og hefur ósjaldan ratað á tískusýningarpalla.

 

Metnaðarfullar myndatökur

Námskeiðinu lauk á vikulangri vinnustofu með Önnu Clausen stílista og Kára Sverris ljósmyndara þar sem lögð var áhersla á miðlun hugmynda og hönnunar. Þegar flíkurnar voru tilbúnar vann Anna með nemendum við undirbúning tveggja myndataka, annarsvegar í studio til að ljósmynda flíkurnar sérstaklega og hinsvegar einskonar tískumyndatöku á alklæðnaðinum í umhverfi að eigin vali nemenda. Afrakstur myndatökunnar átti svo bæði að falla að ímynd tískuhússins sem nemendur völdu sér og inn í anda valins tímarits. „Við vorum lánsöm og fengum módel frá Eskimo models og Kára til liðs við okkur í studio-myndatöku en nemendur unnu frjálsu myndatökuna með hinum og þessum,“ segir Katrín María. Hún segir að þau sem að námskeiðinu stóðu hafi verið ákaflega ánægð með árangurinn og að mikill vilji sé til að þróa ferlið áfram í fleiri verkefni. „Erfitt er að segja hvað stóð uppúr en ef ég á að velja eitt þá voru það kannski auglýsingamyndirnar sem komu mest á óvart ásamt miklum fjölbreytileika í meðferð á efnum og flíkum – og þá á ég við virkilega skemmtilega á óvart,“ segir Katrín María Káradóttir fagstjóri í deild fatahönnunar Listaháskóla Íslands.

 

Að neðan gefur að líta afrakstur verkefna þriggja nemenda í námskeiðinu, þeirra Kristínar Karlsdóttur (litmyndir, svört flík), Bergs Guðnasonar (litmyndir, bleik flík) og Darren Mark Donguiz Trinidad (svarthvítar myndir).