Myndlistardeild Listaháskóla Íslands hvetur ASÍ til þess að endurskoða ákvörðun sína um sölu á Ásmundarsal og beinir þeirri ósk til forsvarsmanna Alþýðusambands Íslands að fórna ekki lífsgæðum almennings á altari efnishyggjunnar og skammtímahagsmuna.  

Myndlistardeild Listaháskóla Íslands harmar þá ákvörðun Alþýðusambands Íslands að selja húsnæði Listasafns ASÍ við Freyjugötu.  

Listaverkaeign sambandsins er að stofni til gjöf Ragnars Jónssonar frá árinu 1961 með 120 myndverkum, eftir fremstu listamenn þjóðarinnar. Síðan þá hefur safnið vaxið til mikilla muna með gjöfum frá listamönnum og söfnurum, og telur nú vel á þriðja þúsund verk. Ragnar stofnaði einnig byggingarsjóð Listasafns ASÍ og gaf út rit um íslenska myndlist eftir Björn Th. Björnsson til að afla fjár í sjóðinn.  

Ekki þarf að velkjast í vafa um verðmæti og mikilvægi þessa safns í eigu alþýðunnar og er vert að minnast orða Hannibals Valdimarssonar þegar gjöf Ragnars var formlega afhent;  

„Þessi dýrmæta gjöf skyldi dag hvern minna oss á, að maðurinn lifir ekki af brauði einu saman – að barátta verkalýðssamtakanna beinist ekki einungis að bættum efnahag hins vinnandi manns, - heldur engu að síður hinu: að fegra líf hans. - Takmarkið æðsta er hamingjusamara og fegurra mannlíf”.  

Þessi orð gætu eins verið einkunnarorð myndlistardeildar LHÍ, sem telur það vera þjóðfélagslega skyldu ASÍ að varðveita safn sitt sem best og tryggja því örugga umgjörð, ásamt því að auðvelda félagsmönnum og þjóðinni allri, aðgengi að því með upplifun og fræðslu.
Allar götur frá stofnun hefur Listasafn ASÍ, ásamt starfi með safneignina, sinnt dýrmætu útgáfustarfi, haldið vinnustaðasýningar og ekki síst, verið einn helsti vettvangur myndlistarmanna til að sýna verk sín, sér í lagi eftir að safnið flutti í núverandi húsnæði sem er sérhannað fyrir myndlistarsýningar. Þessi tenging á milli myndlistarmanna og ASÍ hefur verið falleg og mikilvæg að áliti deildarinnar og forsendur fyrir hendi til að auka þau tengsl til muna í núverandi húsnæði safnsins.  

Í stað þess að draga úr starfseminni með sölu hússins, og stefna safneign sinni í óvissu, hvetur myndlistardeildin Alþýðusambandið, sem er risavaxin fjöldahreyfing á íslenskan mælikvarða, til að endurskoða ákvörðun sína og bæta fremur í en að draga saman seglin, félagsmönnum sínum og landsmönnum öllum til heilla. Styrkur ASÍ felst í fjöldanum að baki þess, fjölda sem berst stöðugt fyrir betri lífskjörum, og fegurra mannlífi. 

Myndlistardeild Listaháskóla Íslands