Um er að ræða tveggja ára meistaranám til 120 eininga í hönnun, myndlist og tónsmíðum.  Meistaranám í listmiðlun og listkennslu, auk tónsmíða, hefur verið í boði við skólann undanfarin ár.

Meistaranámið verður vettvangur fyrir listamenn og hönnuði  til að dýpka og auka þekkingu sína í frjóu akademísku umhverfi en sérkenni meistaranáms í Listaháskólanum er návígi og samvinna nemenda á ólíkum fagsviðum lista. Námið skiptist í sjálfstæða listsköpun á vinnustofum, málstofur, rannsóknir, fræðinám og meistaraverkefni .

Meistaranám í hönnun

Meistaranám í hönnun skapar vettvang til að dýpka þekkingu og efla færni til að takast á við fjölþætt hönnunarverkefni sem beina sjónum að aðkallandi viðfangsefnum í samtímanum. Í náminu er lögð áhersla á samþættingu hugvits og fagurfræði, tækni, vísindi og siðfræði til sköpunar efnislegra og huglægra gæða.

Meistaranám í myndlist

Kjarni meistaranáms í myndlist felst í stuðningi við sjálfstæða og framsækna myndsköpun nemandans. Listsköpun og rannsóknir eru í forgrunni og námið miðar að því að efla færni nemenda í aðferðum fagsins, þjálfa þá í að fjalla um eigin verk og verða virkir þátttakendur á alþjóðlegum myndlistarvettvangi.

Meistaranám í tónsmíðum

Rannsóknartengt meistaranám í tónsmíðum er vettvangur fyrir nemendur til að dýpka þekkingu og skapa sér sérstöðu í fjölbreyttu tónlistarlífi samtímans. Í náminu er lögð áhersla á persónulega sýn og samþættingu listsköpunar og rannsókna við fræði, tækni og fagurfræði.