Umræðan um verk listnemans, Almars Atlasonar, hefur ekki farið framhjá neinum sem fylgst hefur með fjölmiðlum og samskiptamiðlum undanfarna viku, en í verki sínu dvaldi Almar inni í glerkassa í heila viku. Verkið var lokaverkefni í námskeiðinu Leiðir og úrvinnsla sem allir fyrsta árs nemar í BA námi myndlistardeildar taka þátt í og voru nemendurnir alls 30 að þessu sinni. Í lýsingu námskeiðsins kemur meðal annars fram að “heildarmarkmið námskeiðsins er að þjálfa gagnrýna og skapandi hugsun og efla sjálfstæð vinnubrögð er leggja grunn að áframhaldandi námi við skólann.” 

“Þetta eru spurningar sem vakna upp hjá þessum nemenda og hann fylgir þeim eftir í þessari athöfn. Fyrir þennan nemanda þá er hann fyrst og fremst að kanna sjálfan sig.  Viðfangsefni nemenda leiða okkur í margar áttir og við erum alltaf spennt yfir því hvert þau leiða okkur. Við vitum ekki hvað gerist, þetta er bara tilraun, og við styðjum nemendur í sínum listrænu átökum. Við stoppum þau ekki.”

Ólafur Sveinn Gíslason, deildarforseti myndlistardeildar, í kvöldfréttum Stöðvar 2 1. desember s.l.

Listaháskólinn fagnar áhuga samfélagsins á því sem fram fer innan skólans og styður nemendur sína í því sem þeir taka sér fyrir hendur í náminu, enda eru þeir ríkur þáttur í því sem á sér stað í samfélaginu. 

 

“Listaháskóli Íslands, rétt eins og listirnar sjálfar, er vettvangur margvíslegra tilrauna og það er alltaf erfitt að gera sér í hugarlund hvert þær leiða. Við lítum á þetta verkefni eins og hvert annað, einhvern hluta vegferðar, lærdómsferli sem háskólanemar eru að ganga í gegnum. Munurinn á skólanum og öðrum listvettvangi er sá að hér njóta nemendur stuðnings og eru undir handleiðslu og öryggi við úrvinnslu á verkunum. Það má ekki gleymast að þetta er verkefni nemanda sem er enn að fara í gegnum háskólanám. Honum ber að sýna varfærni.” 

Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskólans, Morgunblaðinu, 8. desember s.l.