Dagana 22. – 30. október tóku bæði núverandi og fyrrverandi nemendur hönnunar- og arkitektúrdeildar Listaháskóla Íslands þátt í hönnunarhátíðinni Dutch Design Week í Eindhoven í Hollandi. 

DDW er ein helsta hönnunarhátíð Evrópu með meira en 2500 sýnendur og í ár var sett aðsóknarmet en tæplega 300.000 gestir víðs vegar að úr heiminum sóttu hátíðina. Valin voru til sýningar 7 verk sem unnin voru af 13 nemendum eða fyrrum nemendum deildarinnar. Verkin voru hluti af sýningunni „No Waste“ („Ekkert sorp“) í Klokgebouw, sem er einn af aðalsýningarstöðum hátíðarinnar. 

Sorp hefur verið eitt af mikilvægustu viðfangsefnun hönnunar á síðustu árum og opnar hönnuðum sífellt nýjar leiðir til þess að takast á við og grípa inn í rótgróin samfélagsleg kerfi, hvort sem um er að ræða fólks- eða vöruflutninga, framleiðslu hráefna og notkun þeirra, matvælaneyslu og umbúðir.  

Verkefni nemenda á sýningunni „No Waste“ vörpuðu upp áleitnum spurningum auk þess að leggja til nýja valkosti í umgengni okkar við efnisveruleikann og umbreytingar hans. 

Þarna gafst einstakt tækifæri fyrir hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands til að kynna sig á erlendri grund, segja frá áherslum deildarinnar og kynna verk sem unnin eru við deildina. Þar að auki var mikilvægt fyrir nemendur og nýútskrifaða hönnuði frá LHI að sjá og upplifa sýningu af þessari stærðargráðu, þjálfast í að kynna verkin sín og mynda tengsl við ólíka einstaklinga innan hönnunarheimsins.

Hér að neðan getur að líta þau 7 verkefni sem sýnd voru

Verkið Willow Project var unnið haustið 2015 af 7 nemendum sem útskrifuðust úr vöruhönnun síðastliðið vor. Nemendurnir voru Birta Rós Brynjólfsdóttir, Björn Steinar Blumenstein, Emilía Sigurðardóttir, Johanna Seeleman, Kristín Sigurðardóttir, Theodóra Mjöll Skúladóttir Jack og Védís Pálsdóttir. Í verkefninu var víðiplantan tekin fyrir og hugað að því hvernig vinna mætti ólík efni úr þessari einu trjátegund. Víðir er sterkbyggður og aðallega nýttur til að mynda skjólveggi og undirbúa jarðveg fyrir gróðursetningu annarra verðmætari trjátegunda. Þegar víðirinn hefur gegnt því hlutverki er hann hogginn niður og nýttur í eldivið, kurlaður eða skilinn eftir á skógarbotninum þar sem hann brotnar niður og nýtist sem næringarefni. Nemendurnir voru sannfærðir um að nýta mætti víðinn á fjölbreyttari máta. Þau settu sér þá reglu að nýta eingöngu vatn og hita við verkun víðisins og litu á allar afurðir hans sem verðmætan efnivið. Markmiðið var að ná fram náttúrulegri hringrás efnis. Allt sem þau gerðu þurfti að geta nýst sem næringarefni í skóginum, en ekki fyrr en eftir að það hafði þjónað öðrum tilgangi. 

Védís Pálsdóttir kom til Eindhoven miðvikudaginn 26. október. „Fyrsta daginn sem ég mætti á sýningasvæðið okkar var röð fyrir utan bygginuna, röðin hélst eiginlega allan daginn. Þá áttaði ég mig á stærðinni en hátíðin er mjög vel sótt bæði af fagfólki og almenningi á öllum aldri. Það var virkilega skemmtilegt að taka á móti gestum og gangandi sem allir voru mjög áhugasamir um verkefnin okkar og skólann. Það var heiður að fá að standa við þessi flottu verkefnin frá vöruhönnunar- og fatahönnunarbraut og taka við lofi og jákvæðum viðbrögðum.“

Hið íslenzka epli var útskriftarverkefni Auðar Inez Sellgren úr vöruhönnun árið 2015. Nærri helmingur allra epla er framleiddur í Kína. Stór hluti þeirra er fluttur þaðan langar vegalengdir um allan heim og mikil orka fer í flutning og geymslu. Framtíðarspár um fólksfjölgun og takmarkanir auðlinda benda til að núverandi kerfi muni ekki standa undir kröfum framtíðarsamfélagsins. Því er þörf á að bregðast við þessari þróun og hvetja til staðbundinnar framleiðslu. Hið íslenzka epli er staðgengill hins hefðbunda eplis. Uppskriftin er byggð á næringargildi eplis og formið dregið af fyrirmyndinni. Innihaldsefnin eru öll fáanleg á Íslandi. Næringargildi eplisins er orðið að uppskriftarkerfi og úr verður ný tegund eplis sem er blanda af raunveruleika og framtíðarsýn.

hid_islenska_epli.jpg
 

Heilun jarðar var útskriftarverkefni Sigrúnar Thorlacius úr vöruhönnun árið 2015. Svepparíkið er að mjög litlu leyti rannsakað en engu að síður eru vísindamenn stöðugt að uppgötva nýjar tegundir sveppa sem eru færar um að brjóta niður eiturefni af ýmsum toga. Sveppir eru sértækir og mis virkir í eyðingu eiturefna, en þegar eru þekktar tegundir sem hafa kemísk, geislavirk eða  þrávirk lífræn efni, olíur og jafnvel plast á matseðli sínum. Sumir soga sérstaklega til sín þungmálma og afeitra með því jarðveginn í kring. Aðrir sundra stórum og torbrjótanlegum sameindum í minni og meðfærilegri einingar sem fjöldi lífvera getur nýtt sér. Þannig hrinda sveppir af stað keðjuverkandi niðurbroti á eitruðum efnum sem að öðrum kosti safnast upp með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Heilun jarðar miðar að því að rækta valdar sveppategundir á og við landsvæði sem á árum áður var spillt með eftirlitslausri urðun mengandi efna.

Sigrún taldi sig græða mikið á því að vera viðstödd sýninguna „Tilgangurinn með að fara á svona sýningu er að sjáfsögðu að vekja athygli og í því sambandi skiptir nærvera hönnuðanna miklu máli. Það var bæði krefjandi og ánægjulegt að gefa sig á tal við sýningargesti, ræða við þá um verkin og finna viðbrögðin sem lang oftast voru tvinnuð saman af undrun og þakklæti. Slíkt samtal gefur manni ótrúlega mikinn kraft.
Það var lærdómsríkt og mikil upplifun að vera partur af svona stórri sýningu þar sem hönnuðir úr ýmsum áttum komu saman til að sýna sig, sjá aðra og þreifa á mögulegu samstarfi. Síðast en ekki síst var nærandi að upplifa ferska strauma og verða innblásin.“

Agari er umhverfisvæn vatnsflaska sem unnin var af Ara Jónssyni, nemanda í vöruhönnun, haustið 2015. Í verkefninu eru flöskur mótaðar úr vatni og náttúruvænu efni, agar, sem framleitt er úr rauðþörungum. Flöskurnar hafa þann eiginleika að brotna hratt niður í náttúrunni, ólíkt plastflöskum, en rannsóknir hafa sýnt að það tekur plast um 500-1000 ár að eyðast. Ef flaskan er full af vökva heldur hún upprunalegu formi en um leið og hún tæmist byrjar hún að brotna niður án skaðlegra áhrifa á umhverfið.

agari.jpeg

 

Verkefnið Fly Factory var útskriftarverkefni Búa Bjarmars Aðalsteinssonar úr vöruhönnun árið 2014. Það var innblásið af ábendingum Sameinuðu Þjóðanna um ný vistvæn matvæli fyrir hinn vestræna heim. Skordýr henta einstaklega vel til matvælaframleiðslu, hvort sem litið er til efnhags- eða umhverfisþátta. Búi þróaði sjálfbært ferli til ræktunar á skordýrum og framleiðslu matvæla úr þeim. Sem dæmi framleiddi hann lirfukæfu úr lirfu hermannaflugunnar. Verkefnið hlaut umtalsverða athygli og umfjöllun víðs vegar um heim en fólk virtist ekki tilbúið til að neyta matvælanna.

Að loknu námi stofnaði Búi eigið fyrirtæki með það að markmiði að vinna að því að skordýr falli í hóp hefðbundinna matvæla í hinum vestræna heimi. Þetta leiddi til þróunar á orkustöngum þar sem prótínið er fengið úr skordýrum og kallast varan Jungle Bar. Hún er nú komin í framleiðslu og sölu á bandarískum markaði.
 

Misbrigði eða Morphing castaways er verkefni sem unnið var af nemendum á öðru ári í fatahönnun vorið 2016. Verkefnið var unnið í samstarfi við fatasöfnun Rauða krossins. Nemendurnir fengu föt frá Rauða krossinum sem ekki var hægt að nýta í endursölu. Oft voru göt eða blettir á fötunum sem hefðu farið í endurvinnslu ef þau hefðu ekki verið nýtt af nemendunum. Þau gátu óskað eftir ákveðnu efni til að vinna með en máttu ekki kaupa neitt nýtt heldur aðeins nýta það sem fékkst gefins. Hver nemandi vann heila fatalínu og haldin var tískusýning í Hörpu í mars síðastliðnum. Valin voru verk frá Mögnu Rún Rúnarsdóttur og Darren Mark Donguiz Trinidad til sýningar í Eindhoven.

Magna Rún segir svo frá:  
„Það var ótrúleg upplifun að sjá verkið sitt með á svona stórri sýningu. Þar sem ég missti af uppsetningu þá kom þetta svolítið á óvart þegar ég kom að skoða, að sjá þetta allt í samhengi og átta sig á þessu. Það kom mér líka á óvart hvað fólk hafði mikinn áhuga á að skoða verkefnin okkar úr fatahönnun. Þar sem þessi hátið var aðallega fókuseruð á vöruhönnun bjuggumst við ekki við að fá mikla athygli, en gestir og gangandi voru mjög áhugasamir um verkefnið okkar.“

Verkefnið Birtast var unnið af Birtu Rós Brynjólfsdóttur í vöruhönnun árið 2014. Grænmetisræktun og sérstaklega tómataræktun þarfnast mikillar orku, vatns og áburðar. Í verkefninu var leitað leiða til að fullnýta auðlindirnar. Í staðinn fyrir að nota tómatinn sjálfan, var lögð áhersla á tómatplöntuna. Plönturnar eru reglulega snyrtar og þegar tómatarnir hafa verið tíndir er plöntunum fargað. 
Hægt er að nýta blöðin í pappírsgerð, en pappírinn er dökkur svo að erfitt er að skrifa á hann eða prenta. Með því að nota útfjólublátt ljós er hins vegar hægt að fjarlægja liti á fyrirfram ákveðnum svæðum til að prenta á hann texta eða form. 

 

 

Viðtökurnar sem sýningin fékk voru framar öllum vonum. Allt frá fyrsta degi var stöðugur straumur um básinn og fólk var mjög forvitið og áhugasamt. Verkin vöktu gestina greinilega til umhugsunar auk þess sem margir sýndu námi við Listaháskólann áhuga. Sýningin hlaut spennandi umfjöllun fjölmiðla og hönnuða. Matarhönnuðurinn Marije Vogelzang valdi til að mynda sýninguna inn á sérstakan “food route” þar sem fólki sem hefur áhuga á matarhönnun var sérstaklega bent á að kíkja til okkar. Auk þess var sýningin á topp 10 lista hjá The Creators Project, yfir sýningar sem enginn mátti missa af