Hraðnámskeiðið er hluti af námsskrá samevrópska meistaranámsins Sköpun, miðlun og frumkvöðlastarf eða „European Master of Music, New Audiences and Innovative Practice“ (NAIP). Markmið námsins eru að þróa og framkvæma skapandi verkefni við mismunandi aðstæður og efla áræði og dug nemenda til að gerast leiðtogar á sínu sviði.  Nemendur fást við fjölbreytta tónsköpun og flutning, og þróa í því skyni nýjar aðferðir.

Á hraðnámskeiðinu munu nemendur kynnast helstu þáttum námsins í alþjóðlegu umhverfi, svo sem verkefnisstjórnun, leiðsögn og miðlun.  Námskeiðið skapar vettvang til að efla tengsl skólanna, nemenda og kennara og ennfremur til að deila þekkingu sín á milli.  Helstu leiðbeinendur á námskeiðinu eru Sigurður Halldórsson, Karin Hjertzell, Philip Curtis, Marc van Roon, Renee Jonker og Guy Wood.  Allt að því tuttugu og fimm nemendur munu taka þátt í námskeiðinu frá eftirtöldum skólum: Listaháskóla Íslands, Prince Claus Conservatory í Groningen, Royal Conservatory í Hag, Royal College of Music í Stokkhólmi, Guildhall School of Music and Drama í London, Síbelíusarakademíunni í Helsinki og University of Minnesota í Bandaríkjunum.

Til að hljóta styrk Menntaáætlunar Evrópusambandsins þurfa hraðnámskeið að einkennast af eftirfarandi markmiðum:

    • að efla skilvirka og fjölþjóðlega kennslu á sértæku efni sem væri annars lítið kennt
    • að gera nemendum og kennurum kleift að vinna saman í fjölþjóðlegum hópi og öðlast þannig nýja sýn á efnið
    • að opna fyrir umræðu um innihald, námskrárgerð og kennsluaðferðir í alþjóðlegu umhverfi

Listaháskólinn er annar háskóla í landinum til að hljóta styrk af þessum toga en verkefnisstjórn er í höndum Sigurðar Halldórssonar, fagstjóra námsins Sköpun, miðlun og frumkvöðlastarf og Ölmu Ragnarsdóttur, alþjóðafulltrúa.

Nánari upplýsingar um verkefnið verða birtar á heimasíðu NAIP þegar nær dregur: http://musicmaster.eu/