Kristján mun nýta launin til að vinna að listsköpun og undirbúa sýningar á næstu misserum. Hann sýnir næst í Skaftfelli á Seyðisfirði í júní en þar munu innlendir og erlendir listamenn með aðsetur á Seyðisfirði sýna með listamönnum búsettum á staðnum. Kristján mun fara í leyfi sem deildarforseti.Kristján stundaði nám við nýlistadeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands á árunum 1977 til 1981. Frá árinu 1983 stundaði Kristján nám við Listaháskólann í Hamborg og útskrifaðist þaðan 1987. Frá því að námi lauk hefur Kristján búið í Reykjavík og unnið að listsköpun, kennslu og sinnt stjórnunarstörfum nú síðast sem deildarforseti Listaháskóla Íslands.  

Kristján hefur gegnt ýmsum ábyrgðarstörfum fyrir myndlistarmenn. Hann hefur verið formaður stjórnar Nýlistasafnsins, formaður SÍM (Sambands íslenskra myndlistarmanna), setið í framkvæmdastjórn Listahátíðar í Reykjavík, unnið við sýningastjórnun og ráðgjöf á sviði myndlistar og setið í ýmsum nefndum og ráðum fyrir myndlistarmenn. Árið 2013 skipaði mennta og menningarmálaráðherra Kristján formann myndlistarráðs.

Kristján notar einkum ljósmyndun, teiknun og málun við sjónrænar rannsóknir og listsköpun sem oftar en ekki byggist á náttúruefnum, formum og táknum. Hann skoðar hvernig samspil merkingarhlaðina tákna úr heimi vísindanna og umbreyting á formum og náttúruefnum hefur áhrif á skynjun og upplifun okkar. Hvernig hið smáa getur umhverfst í stórt og gefið huganum tilefni til að ferðast bæði í huglægri og hlutlægri merkingu.