Birta Ísólfsdóttir, Hildigunnur Jónsdóttir og Sjöfn Óskarsdóttir, nemendur í listkennsludeild stóðu fyrir þinginu og tóku alls 19 krakkar úr 7. - 10. bekk þátt. Á þinginu fengu nemendur tækifæri til að tjá hug sinn um list- og verkgreinar og hugsa til framtíðar varðandi starfsval.

Unnið var í hópum og tókust nemendur á við eftirfarandi spurningar:

  • Hversu mikilvægar finnst ykkur list- og verkgreinar vera í náminu?
  • Hverju mætti breyta í list- og verkgreina kennslu?
  • Er eitthvað sem þið mynduð vilja bæta við í ykkar skóla?
  • Finnst ykkur að það ætti að vera meiri list- og verkgreina kennsla í skólanum? Hvers vegna?
  • Finnst ykkur að list- og verkgreinar geti hjálpað ykkur við annað nám?

Niðurstaðan í heild: 
Hóparnir svöruðu á  mismunandi hátt ekki voru allir sammála um mikilvægi kennslu í  list- og verkgreinum en flestir voru þó á  því  að þessi kennsla væri mikilvæg. Bóknám hentar ekki öllum og þessar greinar brjóti upp annað nám þannig að fleiri geti notið sín í  skólanum. Við spurningunni hverju mætti breyta í  list- og verkgreinakennslu skólans þá  svöruðu mjög margir því  að þeir söknuðu tónmenntar og leiklistar því  ekki er boðið upp á nám í  þessum greinum.  Flestir voru sammála um að það þyrfti ekkert endilega að bæta við kennslu í þessum fögum heldur mætti bæta aðstöðu í  kennslustofum þannig að mögulegt væri að vinna að fjölbreyttari verkefnum. Ekki voru margir í  hópnum búnir að gera upp hug sinn varðandi nám til  framtíðar en margir voru opnir fyrir þeim möguleika.
Þegar spurt var hvort list- og verkgreinar geti hjálpað við annað nám þá  svöruðu flestir því á  þann veg að það gæti alltaf stutt við annað nám og útfærslur á  verkefnum í  bóklegum greinum.

Krakkaþingið er lokaverkefni listkennslunemanna þriggja í námskeiðinu Verkefnastjórnun sem kennt er af Frímanni Sigurðssyni.