Verkefni Sigrúnar Ölbu miðar að því að gefa út veglega bók um arkitektúr á Íslandi. Áhersla verður lögð á að kanna viðhorf íslenskra arkitekta til fagsins, skapa umræðu um arkitektúr og áhrif arkitektúrs á daglegt líf og þróun borgarsamfélags á Íslandi.Í bókinni verður fjallað um áhrif arkitektúrs á daglegt líf einstaklinga og hópa fólks með sérstaka áherslu á þróun borgarsamfélags á Íslandi.  Leitað verður svara við því hvernig íslenskir arkitektar sjá fyrir sér að arkitektúr geti haft áhrif á þróun samfélaga, iðkun lýðræðis og ólík samskipti í bæði byggingum og borgum. Bókin verður að meginstofni byggð upp á viðtölum við íslenska arkitekta með ólíkan bakgrunn en ákveðnar og vel mótaða sýn á fagið en auk þess mun höfundur fjalla ítarlega um þær breytingar sem orðið hafa á akritektúr og hugmyndum um áhrifamátt arkitektúrs í samhengi við hugmyndastrauma á 20. og 21. öld, bæði í alþjóðlegu og íslensku samhengi.

Markmiðið með bókinni er að efla faglega umræðu um arkitektúr á Íslandi og auka skilning almennings á þeim áhrifum sem arkitektúr hefur á daglegt líf og þróun samfélaga.

Verkefni Godds snýst um söfnun á íslensku myndmáli sem tengist grafískri hönnun. Allt frá rúnum, galdratáknum og munstrum í íslenskum handritum, notkun á myndmáli, stafagerðum og myndlýsingum í prentuðu máli. Fylgt er þróun og tækniframförum í prentlist, höfundar myndrænnar framsetningar kortlagðir og stílgreindir.

Goddur hefur stundað rannsóknir á sögu grafískrar hönnunar á Íslandi frá árinu 1999. Rannsóknarvinnan hófst vegna undirbúnings á hönnunarsýningunni MÓT á Kjarvalsstöðum árið 2000 sem fjallaði um hönnun á Íslandi. Mikið efni safnaðist fyrir afmælissýningu Félags Íslenskra teiknara árið 2004. Hátt á þriðja þúsund frumteikninga sem þegar hafa verið flokkaðar, skannaðir inn eða ljósmyndaðar. Viðtöl hafa verið tekin við flesta núlifandi frumherja grafískrar hönnunar eins og við þekkjum þá starfsgrein í dag. 

Sérstök áhersla hefur verið lögð á að ná inni efni fram að stafrænni byltingu á síðasta áratug síðustu aldar. Þetta efni hefur verið notað við gerð kennsluefnis um sögu grafískrar hönnunar á Íslandi við Listaháskóla Íslands.  Efni úr þessum rannsóknum hefur verið notað til bókaútgáfu og gerð sýningaskráa, svo sem á sýningu um starfsferil Harðar Ágústssonar á Listasafni Reykjavíkur, sýningu á starfsferli Gísla B. Björnssonar á Hönnunarsafni Íslands, sýningu Kristínar Þorkelsdóttur í Gerðarsafni. Úrdráttur eða samantekt á sögu Grafískrar Hönnunar var nú nýverið birtur í Sögu prentsmiðjunnar Odda af tilefni 70 ára afmælis prentsmiðjunnar.

Fyrirtæki Lindu B. Árnadóttur, Scintilla, fékk styrk frá sjóðnum til að markaðssetja vörur fyrirtækisins erlendis.

Það er ánægjulegt að segja frá því að meðal styrkþega eru nýútskrifaðir nemendur, Jón Helgi Hólmgeirsson, Sigríður Rún Kristjánsdóttir og Unnur Valdís Kristjánsdóttir og einnig nemendur sem útskrifuðust fyrir um áratug og hafa skapað sér nafn í hönnunarheiminum og stofnað fyrirtæki í samstarfi við aðra s.s. Vík Prjónsdóttir, As We Grow og Tulipop.

Rúmlega 200 umsóknir bárust sjóðnum en alls hljóta 29 verkefni styrk auk þess sem 20 ferðastyrkir eru veittir.