Í fyrirlestrinum mun Ólafur fjalla um kenningar sálfræðingsins C. G.  Jungs og þýðingu þeirra fyrir skilning okkar á táknmáli mynda og myndlistar. Hann mun  fjalla um ólíkar hugmyndir um dulvitund mannsins, um hugmyndir Jungs um virkni tákna og frumlægra mynda í viðleitni mannsins til þess að verða hann sjálfur. Í fyrirlestrinum verður einnig fjallað um myndlist Jungs, einkum myndir sem birtar voru fyrst löngu eftir dauða hans í „Rauðu bókinni“. 

Ólafur Gíslason (1943) hefur starfað sem blaðamaður og listgagnrýnandi í um 35 ár. Hann hefur kennt listasögu og listheimspeki í Listaháskólanum, Myndlistarskólanum í Reykjavík og Endurmenntun Háskólans í fjöldamörg ár og skrifað fjölda fræðigreina í bækur og tímarit um myndirnar og orðin, um sögu myndanna og hugmyndanna í íslensku og alþjóðlegu samhengi. Hann hefur einnig starfað við menningartengda ferðaþjónustu og sem fararstjóri  erlendis í um 35 ár, einkum um lönd Miðjarðarhafsins. 

Fyrirlesturinn fer fram á íslensku og eru allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.