Íslenskuþorpið er samstarfsverkefni HÍ, LHÍ, Háskóla Suður-Danmerkur og ICT (Swedish Interactive Institute). Hugmyndin að baki þorpinu byggir á rannsóknum dr. Guðrúnar Theodórsdóttur, lektors í annarsmálsfræðum við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Íslenskuþorpið er nýsköpunarverkefni um nýja kennsluhætti fyrir málnema í íslensku sem öðru máli. Í þorpinu fá nemarnir þjálfun í að nota íslensku við daglegar aðstæður.

Hannað var kennsluefni, umhverfi, viðmót, mörkun, heildarútlit, upplifun og aðstæður til þess að nemarnir geti lært með því að tala við öruggar aðstæður og jákvætt hugarfar. Í þorpinu taka þjónustustofnanir og fyrirtæki virkan þátt í kennslu og skapa þannig smækkaða mynd af bæjarlífi. Námsefnið, til nota innan og utan kennslustofunnar, er enn í þróun, sem og kennsluhættir. Hluti af verkefninu er gagnasöfnun sem nýtist til þróunar og með tímanum verður þorpið að vettvangi sem nýtist fólki utan háskólans sem vill læra íslensku og ferðamönnum sem eru áhugasamir um íslenska tungu.