Hinir fyrstu voru í borginni Trouville sur Mer í Normandí, þar sem tríóið lék á páskatónleikum borgarinnar í kirkjunni Notre Dame de Bon Sécour. Christian Cardon, borgarstjóri Trouville, var viðstaddur tónleikana og bauð tríóinu með sér út að borða í lok tónleikanna, sem voru fyrir fullri kirkju við glimrandi viðtökur  áheyrenda.

Næstu tónleikar voru hjá Cité des Arts, alþjóðlegu listamiðstöðinni í París 28. apríl og degi síðar lék tríóið á tónleikum hjá Unesco í París við opnun sýningar Errós. Síðustu tvennir tónleikarnir í byrjun maí voru tengdir vináttuböndum Íslendinga við borgirnar Paimpol á Bretagne skaganum og Graveline í Norður-Frakklandi við Ermasund, sem mynduðust við sjósókn franskra skútuveiðimanna til Íslandsmiða á 19. öld og fram á þá 20. öld. Íslenski þorskurinn gegndi þá mikilvægu hlutverki í að forða hungursneyð á þessu svæði og lögðu sjómennirnir mikið á sig í 6 mánaða veiðitúrum norður eftir. Margir áttu ekki afturkvæmt. Þessi frönsku bæjarfélög halda minningu þessara sjómanna á lofti og finnst þau seint geta fullþakkað Íslendingum þorskinn og margs konar aðstoð. Um þetta allt er ítarlega fjallað í bók Elínar Pálmadóttur, “Fransí, biskví”.

Tónleikunum í þessum borgum var, líkt og á hinum stöðunum, afar vel tekið og lauk með standandi lófataki. Borgarstjórar og bæjaryfirvöld sýndu hljóðfæraleikurunum mikla gestrisni og hlýju eins og væri um opinbera heimsókn að ræða. Franski sendiherrann á Íslandi, Marc Bouteiller, sem átti heiðurinn af tveim síðastnefndu tónleikum, var með í förinni. Á efnisskrá tríósins voru aðallega íslensk verk, eftir Snorra Birgisson, Áskel Másson, Þorkel Sigurbjörnsson og Atla Heimi Sveinsson, auk útsetninga Atla á lögum Sigfúsar Halldórssonar og Emils Thoroddsen. Auk þess eyrnakonfekt eftir m.a Doppler, Clinton, Fauré og Schubert. Á sl. hausti hélt Íslenska kammertríóið 10 tónleika í Kína. Næstu tónleikar þess á erlendri grund eru í Berlín 23. júní.