Fréttatíminn í dag fjallar um langvarandi húsnæðis- og rekstrarvanda Listaháskóla Íslands. Í greininni er farið yfir húsnæðissögu skólans og rætt við Fríðu Björk Ingvarsdóttur, rektor, og Kolbrúnu Halldórsdóttur, stjórnarformann stjórnar Listaháskólans.

Báðar koma þær inn á hækkuð skólagjöld nemenda en þau eru nú einn fimmti af rekstrarfé skólans.

"Skólagjöld nemenda sjálfra í Listaháskólanum eru fimmtungur af rekstrarfé skólans en þau hafa farið stigvaxandi frá því hann var stofnaður. Þau hafa hækkað um eitt hundrað milljónir á núvirði. Fríða Björk segir stjórnvöld greinilega stefna að því að nemendur greiði meira fyrir háskólanám í framtíðinni. Nemendur skólans telji þetta vera misrétti til náms, þar sem listnám á Íslandi sé eina námið, þar sem hlutfall skólagjalda sé jafn hátt og raun ber vitni án þess að ódýrari valkostur sé í boði í skólakerfinu. Nemendur greiði þessi gjöld eða fari utan til náms. Fríða Björk segist sammála nemendum um þetta, þetta sé vond stefna og hluti af þeirri lítilsvirðingu sem fræðasvið lista þurfi að búa við.

Úthýsa ákveðnum listgreinum

Kolbrún Halldórsdóttir, formaður BÍL og stjórnarformaður Listaháskóla Íslands, segir að ekki komi til greina að hækka skólagjöldin meira en orðið er, þau séu löngu komin upp úr þakinu. Það séu allir í stjórn skólans sammála um. Hún segir að það komi ekki heldur til greina að fækka nemendum. Fyrir utan hvað það væri í hrópandi ósamræmi við þörfina, þá myndi það heldur ekki svara kostnaði. Það sé ekki hægt að fækka kennurum frekar ef gæði námsins eigi að halda sér. Ef þessi stefna haldi áfram þurfi að leggja af kennslu í einhverjum greinum innan skólans. „Stjórnvöld þurfa þá að ákveða, hvað á að skera burtu, arkitektúr, sviðslistir, dans eða tónlist, til dæmis? En miðað við það sem á undan er gengið hefði farið betur á því að þau hefðu sleppt því að hafa sérstaka málsgrein um að efla skapandi listir og menningu í stjórnarsáttmálanum,“ segir Kolbrún Halldórsdóttir."

Hér er hægt að lesa greinina alla:

http://www.frettatiminn.is/listahaskolinn-er-olnbogabarn-i-skolakerfinu/