Á vorútskriftarathöfn Listaháskóla Íslands sem fram fór í Silfurbergi, Hörpu, þann 17. júní 2016, var Hjálmar H. Ragnarsson, fyrsti rektor skólans og tónskáld, sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við skólann. Hann hlýtur þessa sæmd fyrir starf sitt við uppbyggingu listmenntunar á háskólastigi.

Nafnbótina heiðursdoktor má veita þeim sem skólinn vill heiðra fyrir einstakt framlag til lista og menningar. Með valinu skapast tækifæri fyrir skólann til að sýna viðkomandi virðingu fyrir farsælt starf og mikilsvert framlag til fræðasviðs lista.
Þeir sem hljóta þessa sæmd skulu hafa áorkað mikilsverðu starfi og njóta virðingar á sínu sviði, ýmist sem listamenn, fræðimenn eða hvers kyns leiðtogar á sviði menningar, lista eða listmenntunar.

Á útskriftarathöfninni voru flutt þrjú verk eftir Hjálmar:

Prelúdía nr. 2, Allegro con brio, úr 5 prelúdíum fyrir píanó (1985)
Úr Rhodymenia Palmata, óperu í 10 þáttum fyrir einsöngvara, kór og hljómsveit (1992)
Gamalt vers (1980)

Hjálmar fékk við þetta tilefni pendúl hannaðan af Tinnu Gunnarsdóttur, vöruhönnuði, og kennara við skólann, og heiðursskjal hannað af Guðmundi Oddi, prófessor í hönnun- og arkitektúrdeild.

Hér fyrir neðan má lesa Hátíðarræðu Hjálmars H. Ragnarssonar:

Tvær kynslóðir, tvennir tímar

hátíðarræða við útskrift Listaháskólans 17. júní 2016

Rektor, kennarar, starfsfólk skólans, útskriftarnemendur, virðulega samkoma.

Ég þakka innilega þann mikla heiður sem mér er sýndur nú í dag með því að ég er útnefndur fyrsti heiðursdoktor Listaháskólans. Það er nú ekki á hverjum degi sem manni hlotnast svona virðuleg nafnbót, heiðursdoktor, svo það er eins gott að standa undir tilefninu. Þegar ég gekk hér inn í salinn hafði ég ekki hugmynd um að það yrði flutt tónlist eftir mig hér í dagskránni og þakka ég af innsta hjarta listafólkinu fyrir þennan fallega og vandaða flutning. Þá þakka ég fyrir þau hlýju orð í minn garð sem hér hafa verið látin falla. Þau snerta mig og ég tek þau til mín. ---

Mig langar til að nota tækifærið og  ræða um tvær kynslóðir og tvenna tíma, um kynslóð föður míns, aldamótakynslóðina fyrri, og um ykkur, ágætu útskriftarnemendur, aldamótakynslóðina síðari. Já, það er reyndar tenging þarna á milli. 

Pabbi minn, Ragnar, var fæddur 1898, já ég segi 1898, sem þýðir að það er næstum 100 ára aldursmunur á milli hans og ykkar útskriftarnemendanna. Hann fæddist í torfbæ í litlum afdal norður í landi þar sem rennur fallegasta á í heimi og þótt víðar væri leitað.  Pabba minn langaði til að læra tónlist. Það var orgel á heimilinu, og hann lærði undirstöðuatriðin af föður sínum, en hann langaði til að læra meira.  Þegar svo Samvinnuskólinn var svo stofnaður í Reykjavík 1918 ákvað pabbi, þá tæplega tvítugur að aldri, að reyna að komast í skólann, og þá í leiðinni að fá spilatíma hjá kennara sem kynni eitthvað á hljóðfæri.

Það varð svo úr að hann lagði af stað til Reykjavíkur, fótgangandi, í október það sama ár, og hreppti hann vond veður á leiðinni og varð sjálfur næstum því úti. Til að bæta á erfiðleikana þá var Reykjavík og nágrenni hennar sett í sóttkví þetta haust vegna Spönsku veikinnar, sem þá grasseraði í bænum, svo ekki komst pabbi í samvinnuskólann fyrr en eftir áramótin þegar sóttkvínni var aflétt. Nám föður míns við samvinnuskólann varð því aldrei nema þetta hálfa ár og það var eina formlega skólamenntunin sem hann fékk.  

Ég ætla nú ekki að rekja sögu föður míns í einhverjum smáatriðum, en langar þó að bæta við að hann fór síðar til Vesturheims, Kanada og Bandaríkjanna, - hann vildi kynnast umheiminum og læra að spila á píanó. Pabbi gerðist svo sjálfboðaliði í Bandaríkjaher þegar síðari heimsstyrjöldin braust út, og fékk þar þjálfun sem skriðdrekahermaður, en fyrir duttlunga örlaganna var hann sendur til Íslands þegar Bandaríkjamenn tóku við hervernd landsins af Bretunum sumarið 1941.  Síðar meir stofnaði pabbi minn tónlistarskóla á Ísafirði.

Því er ég að segja þessa litlu sögu af föður mínum, að mikilvægi menntunar er síst minna í dag en það var þegar hann gekk suður heiðar til að komast í Samvinnuskólann.  Nú er ég ekki endilega að tala um menntun í þeim skilningi að læra eitthvað fag eða eða öðlast færni á einhverju ákveðnu sviði, - það er auðvitað afar brýnt og flestir framhaldsskólar og háskólar sinna því ágætlega vel, - nei ég er að tala um menntunina sem gerir okkur að víðsýnum manneskjum, sem eflir með okkur skilning  á öðru fólki, og sem opnar fyrir okkur allar þær dásemdir sem heimurinn býr svo ríkulega yfir.

Aldamótakynslóðin, kynslóð föður míns, byggði upp hið nýja Ísland eins og við þekkjum það í dag: fyrstu vegina, brýrnar, hafnirnar, skólana, sundlaugarnar, þjóðleikhúsið, og já, sinfóníuna, útvarpið, og svo margt og svo margt fleira. Allt þetta byggðist upp á fáeinum áratugum og við urðum alvöru þjóð, og sköpuðum okkur virðingu í alþjóðlegu samfélagi.  Nú tekur það okkur aðeins um 5 klukkutíma að keyra leiðina sem faðir minn gekk forðum á nokkrum vikum.

En þótt svo margt hafi áunnist eru vandamálin og úrlausnarefnin ekkert færri eða auðveldari í dag en þau voru fyrir hundrað árum. Við þekkjum þau og við tölum um þau: eyðing náttúrunnar og eitrun andrúmsloftsins, stríðsrekstur og valdbeiting, fátækt og misskipting auðsins, skoðanakúgun og  misrétti, og svo margt fleira og fleira. 

Okkur finnst við vera vanmáttug gagnvart þessum ógnvænlegu vandamálum, og við efumst um mátt okkar til að breyta einhverju sem skiptir máli. Þó er það þannig, og það hefur margsýnt sig, að breytingarnar byrja einmitt hjá einstaklingnum, fyrst kannski hjá einum, svo bætist í hópinn og áður en við vitum hefur orðið til hreyfing sem breytist í afl. Þannig verða til friðarhreyfingar, mannréttindahópar, náttúruverndarsamtök og líknarfélög.

Hitt, sem er svo mikla dýpra og í raun verra, það er þessi nagandi ótti við óvissuna, og hræðslan við það sem gæti gerst ef eitthvað breytist, - hræðsla og ótti sem hefur gripið um sig hjá stórum hópum fólks, ekki bara hér á Íslandi heldur vítt og breitt í nágrannalöndum okkar bæði til austurs og vesturs. Sjálfsagt tengist þetta að einhverju leyti nýrri samskiptatækni og  aukinni ghettóvæðingu samfélagsins, en það er því miður svo að margir sjá í þessu tækifæri, tækifæri til að sá fræjum andúðar og haturs, og  tækifæri til að egna hópa samfélagsins hvern á móti öðrum. Þetta eru lýðskrumararnir sem komist hafa til forystu í fjölmennum stjórnmálahreyfingum og gera tilkall til valda í mörgum stærstu og voldugustu ríkjum heims.

Til grundvallar liggur að spila á fáfræði fólksins, ljúga til um staðreyndir,  og vanvirða þekkingu og kunnáttu þeirra sem best þekkja til og vita mest um málin.  Er það ekki ótrúlegt að nú í byrjun 21. aldarinnar, á öld upplýsinganna og samskiptatækninnar, skuli enn stórir hlutar þjóða afneita kenningum um þróun lífs á jörðinni, og þræta fyrir það að það sé manninum að kenna að jöklarnir bráðni og andrúmsloftið eitrast. Þá er því líka haldið fram að það sé hættulegt, já, jafnvel stórhættulegt,  að bjóða fólki skjól, - fólki sem flúið hefur heimahaga sína vegna fátæktar, hungurs og stríðsreksturs. Gagnvart svona afneitunum og mannvonsku stöndum við ráðþrota, en þó ekki alveg því það hefur sýnt sig að því betur sem fólk er upplýst og því betur sem það er menntað því gagnrýnna er það á lýðskrum og falsanir.

Þegar á allt er litið er það menntunin sem upplýsir, það er menntunin sem elur á samúð og það er menntunin sem tengir okkur saman .

---

Virðulega samkoma. Mér var á sínum tíma sýnt mikið traust þegar mér var falið að vera í forystu fyrir stofnun Listaháskólans og veita honum síðan forstöðu fyrstu fimmtán uppvaxarárin. Þegar mér nú í dag er veitt æðsta viðurkenning skólans fyrir þetta starf er ég hrærður en um leið óendanlega glaður. Efst í huga mínum er að deila viðurkenningunni með öllu því stórkostlega fólki sem kom að stofnun og rekstri skólans með mér þessi ár, sumir þeirra starfa hér enn, aðrir eru hættir og hafa tekið upp önnur störf, og nokkrir eru látnir og minnist ég þeirra með sérstakri virðingu. Þá vil ég þakka nemendunum sem sýndu skólanum það tiltraust að taka þátt í ævintýrinu með okkur, vera tilraunadýrin og segja okkur til með góðlegum hætti hvernig við gætum bætt aðstöðuna, eflt námið, og búið til betri skóla.  Ágæti rektor, stjórnendur, kennarar og starfsmenn: takk fyrir traustið og heiðurinn sem mér er sýndur.

Þið, ágætu útskriftarnemendur, þið berið birtuna í brjósti: þekkinguna, kunnáttuna, víðsýnina og  skilninginn. Þið kunnið þá list að skapa eitthvað úr engu, og fyrir ykkur er sjóndeildarhringurinn alltaf víðari en augu ykkar sjá. Með nýrri þekkingu og nýrri tækni breytist skilningur okkar á heiminum, og ykkur, nýju aldamótakynslóðinni, gefast tækifæri til að búa til betri og mannúðlegri heim en við eigum nú.  

---

Mig langar til að ljúka með þessum orðum, sem ég beini sérstaklega til ykkar, ágætu nemendur: 

Við sjáum ekki leiðina framundan, hún er ekki merkt, en hún er samt þarna einhvers staðar. Og þú, ungi listamaður, þú hefur hlutverk. Þú skáldar veginn upp, skáldar hann upp úr engu, fyllir út blaðið, lætur hljómana dynja, flýgur í dansi, og þú teiknar í skýin. Nú er vitsins þörf, ekki bara eitthvað fallegt, ekki bara eitthvað sem passar vel saman, - nei, heldur einmitt hitt, það sem vill ekki, það sem rekst á, er óþekkt, truflandi, stingandi, og kannski meiðandi. Bara það sé vit, skilningur, hugsun, dýpt, vilji, eitthvað sem krefst, eitthvað sem kallar, eitthvað sem kallar eftir mér, og kallar eftir þér.