Útskriftarverkefni Hörpu er unnið í framhaldi af BA-ritgerð hennar,
„Frá útilokun til jafnréttis“ þar sem hún fjallaði um hlut kvenna í
sinfóníuhljómsveitum og öðrum samspilum þar sem hlutur karla hefur verið
meiri í tónlistarsögunni. Hér snýr hún sér að íslenskum kventónskáldum
og fjallar um þær bæði í máli og tónum.

Á efnisskrá er Minning um þvottadaga eftir Þóreyju Sigurðardóttur í
útsetningu Hörpu, Nunnan eftir Selmu Kaldalóns, Brassquintett #1 eftir
Hildigunni Rúnarsdóttur, Untitled sem Bergrún Snæbjörnsdóttir samdi
sérstaklega fyrir þennan viðburð og Í dansi með þér eftir Ingibjörgu
Þorbergs.

Harpa er fædd árið 1987 í Keflavík þar sem hún hóf sitt tónlistarnám
árið 1996 og lærði á kornett og trompett. Seinna færði hún sig yfir á
bariton horn og síðar bætti hún einnig við sig básúnu. Harpa spilaði á
tónleikum með Björk 2007-2008. Hún hefur spilað með mörgum hljómsveitum í
gegnum tíðina, m.a. Sinfóníuhljómsveit Unga fólkins, Ungsveit
Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Hljómsveit Tónlistarskólans í Reykjavík,
Sinfóníuhljómsveit áhugamanna og ýmsum popp- og dægurlagahljómsveitum.

Ásamt því að hafa stundað fullt nám við LHÍ frá 2009 hefur Harpa
unnið sem málmblásturskennari og lúðrasveitarstjórnandi við
Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.