Sýningin var valin til að taka þátt í stórri alþjóðlegri leiklistarhátíð, World Stages. Viðburðir á hátíðinni koma frá 20 löndum, en meðal þeirra sem taka þátt eru ýmsir af fremstu leikhúslistamönnum heims. Má þar nefna leikstjórann Peter Brook, leikskáldin Ariel Dorfman og David Williamson, og the Handspring Puppet Company. Sýningarnar á hátíðinni koma víða að, meðal annars frá Frakklandi, Ástralíu, Mexíkó, Chile, Bretlandi, Suður-Afríku, Kanada, Ísrael, Kína og Japan.

Harmsaga var frumsýnd í Þjóðleikhúsinu í september s.l. í leikstjórn Unu Þorleifsdóttur, lektors og fagstjóra sviðshöfundabrautar, en verkið var jafnframt hennar fyrsta leikstjórnarverkefni við leikhúsið.  Leikmynda- og búningahöfundur er Eva Signý Berger, tónlistin er eftir John Grant, Kristinn Gauti Einarsson hannaði hljóðmynd og Magnús Arnar Sigurðarson hannaði lýsingu.  

Verkið hefur verið þýtt á ensku og munu leikararnir í sýningunni, þau Elma Stefanía Ágústsdóttir og Snorri Engilbertsson, leika verkið á ensku í Kennedy Center. Harmsaga var sýnd í Kassanum í Þjóðleikhúsinu en verður sýnd í mun stærri sal á hátíðinni, eða sal sem tekur 500 áhorfendur. Leikhópurinn og leikstjórinn munu ásamt tæknifólki og leikhússtjóra Þjóðleikhússins halda til Washington í næstu viku.

 Frekar upplýsingar um hátíðina má finna á heimasíðu hennar