Hönnunarmessan Stockholm Furniture Fair stendur yfir dagana 9.-13. febrúar en þar sýnir Garðar Eyjólfsson, lektor og fagstjóri vöruhönnunar við Listaháskólann, verk sitt Sulphur Archive á sýningunni Aurora – Nordic Architecture and Design.

Sulphur Archive er afsprengi áframhaldandi rannsókna efna- og tæknirannsókna Garðars á nærumhverfi sínu, umbreytingum þess og staðbundnum hráefnum en efniviðurinn hér er brennisteinn og basalt. Form hlutanna byggir að hluta til á tækninni sem notuð er en Garðar notar nýja tækni til að nálgast gamlar handverksaðferðir. Gömul þekking er þannig færð í nýjan búning. Þrívíddarskurður notaður til að greipa brennistein í basalt svo úr verður kunnugleg útkoma í óvæntum efnum. Og vegna lágs bræðslumarks brennisteinsins er hægt að steypa hann í laserskornum pappamótum og bera form keramíksins þess merki.

sulfurcontext03.jpg
sulfurcontext02.jpg

Verkið er einnig hugleiðing um jarðvarmavirkjanir og áhrif þeirra á okkur og umhverfi okkar en þær sleppa breinnisteinsdíoxíði út í andrúmsloftið í miklu magni. Sulphur Archive er því einskonar iðnaðarfantasía þar sem möguleikum á samlífi mismunandi framleiðslu, hugmynda og hönnunar er velt upp en einnig þeim ákvörðunum sem teknar eru um nýtingu á náttúrunni og áhrifum þeirra.

sulfur01.jpg
sulfur05.jpg

Á sýningunni Aurora – Nordic Architecture and Design er sjónum beint að því að þótt Norðurlöndin séu um margt lík séu aðstæður til hönnunar mjög ólíkar milli landanna. Gripirnir sem þar eru til sýnis bera þess skýr merki að hafa orðið til í og út frá einstöku umhverfi og aðstæðum hvers lands.

Myndirnar eru eftir Johanna Seelemann og hægt er að kynna sér verkið nánar á eyjolfsson.com