Fyrirlesturinn nefnir hún „Essens og ástríða.“  Á sama tíma verður opnuð í bankanum sýning á verkum Guðmundu. 

Guðmunda Andrésdóttir (1922-2002) var meðal íslenskra brautryðjenda í listsköpun um miðbik síðustu aldar. Abstraktsjón í myndlist sem byggði á umbyltingu og endurskilgreiningu, nálgun sem var andstæða eldri formgerða og birtingarmynda veruleikans. Hún var í hópi íslenskra listamanna sem dvöldu í París á fimmta og sjötta áratugnum og drukku í sig menningarstrauma eftirstríðsáranna í Evrópu og höfðu mótandi áhrif á menningarlíf á Íslandi á síðari hluta tuttugustu aldar.

Guðmunda var eina konan sem starfaði með Septem hópnum og innan þess samhengis sótti hún sinn styrk og sína ögrun. Í harðneskjulegu listumhverfi þess tíma lét hún aldrei undan ástríðu sinni og leit að essens. Hún var þrautseig og æðrulaus. Kona fárra orða en sterkra skoðana og skýrrar sýnar.  

Fyrirlesturinn fer fram á íslensku og er öllum opin á meðan húsrými leyfir.