Didier Semin hefur gengt stöðu prófessors við École nationale supérieure des Beaux-Arts í París frá árinu 1998. Hann hefur einnig starfað sem sýningarstjóri hjá Musée de l'Abbaye Sainte-Croix, Musée d'Art Moderne de la Ville de Paris og Musée National d'Art Moderne. Semin hefur skipulagt ýmsar yfirlits- og þematengdar sýningar m.a. stóra sýningu á verkum Kurt Schwitters og í samvinnu við franska heimspekinginn Georges Didi-Huberman stýrði hann sýningunni L'Empreinte (Imprint / Prentið) í Centre Georges Pompidou árið 1997. Semin hefur einnig gefið út fjölda rita um listamenn og listfræði.  Undanfarnar tvær vikur hefur Didier Semin verið sérstakur gestur myndlistardeildar. Hann leggur ríka áherslu á að nemendur og starfandi listamenn sæki ekki inn um aðaldyr listasögunnar heldur leiti uppi hliðadyr, glufur og útskot. 

Fyrirlestur Didier Semin nefnist Frogland þar sem hann mun velta upp þeirri áhugaverðu spurningu hvort menn séu komnir af froskum en ekki öpum. Semin mun rekja tengsl froskdýra við mannslíkamann í gegnum ýmsar birtingarmyndir úr listasögunni allt frá verkum Bosch til Bramantino og Goya.

Fyrirlesturinn fer fram á ensku og er aðgangur ókeypis.

Opnir fyrirlestrar í myndlistardeild

Á ári hverju heldur fjöldi lista- og fræðimanna erindi um verk sín og hugmyndir á fyrirlestrum í myndlistardeild. Fyrirlestrarnir eru opnir almenningi og er ætlað að kynna margþætt viðfangsefni úr heimi lista og samtímamenningar og hvetja til umræðu um þau. Fyrirlestrarnir eru mikilvægur þáttur í starfsemi deildarinnar og eru ætlaðir til að efla tengsl milli nemenda og starfandi lista- og fræðimanna. 

Fyrirlestrar í myndlistardeild fara fram í fyrirlestrarsalnum að Laugarnesvegi 91. Þeir eru opnir almenningi og aðgangur ókeypis.