Fimmtán aðilar sóttu um stöðu rektors sem var auglýst í nóvember og rann umsóknarfrestur út í byrjun janúar 2013.

Fríða Björk er með MA gráðu frá University of East Anglia í Norwich, í 19. og 20. aldar skáldsagnagerð en námið var samtvinnað deild háskólans í ritlist. Veigamikill þáttur í náminu var menningarfræðileg greining á skapandi listum og samhengi þeirra við umhverfið. Fríða Björk er með BA gráðu frá Háskóla Íslands í almennri bókmenntafræði og stundaði einnig nám til BA prófs í Centre Universitaire de Luxembourg.
Fríða Björk hefur getið sér gott orð sem bókmennta- og menningarrýnir, rithöfundur,  blaðamaður og þýðandi.  Undanfarin ár hefur hún starfað sjálfstætt, m.a. sem þýðandi og fyrirlesari, en einnig sem þáttagerðarmaður hjá Ríkisútvarpinu. Hún hefur verið fastur gagnrýnandi Víðsjár á Rás 1 og í Kiljunni í Sjónvarpinu. Um þessar mundir er hún gestaumsjónarmaður í vikulegum þætti á Rás 1 Íslensk menning – getum við gert betur. Fríða Björk starfaði hjá Morgunblaðinu í tæp 10 ár (2000-2009) og gegndi þar ýmsum störfum. Hún var ritstjórnarfulltrúi menningar um árabil, einn af leiðarhöfundum blaðsins, pistla- og greinahöfundur. Einnig skrifaði hún  bókmenntagagnrýni bæði um íslenskar bókmenntir og erlendar.  Fríða Björk vann einnig sem sérfræðingur í þýðingardeild utanríkisráðuneytisins um skeið og kenndi við Háskóla Íslands á árunum 1997-2008.

Fríða Björk er stjórnarformaður Gljúfrasteins – húss skáldsins, skipuð af menntamálaráðherra. Einnig á hún sæti í ráðgjafarnefnd um heiðurslaun Alþingis, og sem varmaður í samstarfshópi um skapandi greinar – hvort tveggja fyrir hönd menntamálaráðherra. Hún sat í stjórn Kjarvalsstofu í París frá 2009-2012 og var stjórnarformaður Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar frá 2006-2009.  Fríða Björk vann einnig að uppbyggingu Vatnasafnsins í Stykkishólmi, sem fulltrúi bresku menningarstofnunarinnar Artangel og hefur síðan það opnaði haft umsjón með úthlutun styrkja til rithöfunda sem þar dveljast ár hvert.

Fríða Björk er gift Hans Jóhannssyni hljóðfærasmiði og eiga þau tvö börn, Elínu Hansdóttur, myndlistarmann og Úlf Hansson, tónskáld.