Elísabet stundaði nám við Tónlistarháskólann í Munchen í Þýzkalandi um sex ára skeið og lauk þaðan prófi í einsöng og söngkennslu árið 1968. Helztu kennarar hennar voru Hanno Blaschke og Josef Neher, hljómsveitarstjóri.

Eftir að  Elísabet lauk námi  lagði hún einkum fyrir sig tónlistarkennslu, fyrst við Tónlistarskóla Kópavogs og síðan Tónlistarskólann í Reykjavík. Frá stofnun tónlistardeildar Listaháskólans hafði hún yfirumsjón með menntun einsöngvara við skólann.

Elísabet  átti að baki langan feril sem einsöngvari. Hún söng m.a. á þrennum listahátíðum í Reykjavík og fjölmörgum hljómleikum víðsvegar um Ísland. Hún frumflutti mörg verk íslenzkra nútímatónskálda auk þess sem hún tók  þátt í flutningi stórra kórverka svo sem Jólaoratoriu og Jóhannesarpassíu Bachs og C-dur messu Beethovens. Einnig Háskólakantötu Páls Ísólfssonar  og Hátíðarljóðs 1930 eftir Emil Thoroddsen. Að ógleymdum mörgum kantötum eftir J.S.Bach. Eftir hana liggja auk þess  fjölmargar upptökur á plötum og fyrir útvarp.

Kennarar, nemendur og starfsfólk tónlistardeildar þakka samfylgdina og minnast hennar með alúð og virðingu.