Dainius Bendikas hefur verið ráðinn í stöðu aðjúnkts við námsbraut í fatahönnun við hönnunar- og arkitektúrdeild  en hann hefur fjölbreytta reynslu á sviði hönnunar.

Dainius útskrifaðist frá Vilnius Art Academy í Litháen árið 2011. Á meðan námi hans stóð kom hann til Íslands sem skiptinemi og sneri hann aftur hingað til lands að útskrift lokinni. Undanfarin ár hefur Dainius starfað í hönnunarteymi JÖR en hann hefur einnig hannað búninga fyrir Of Monsters And Men og rokkóperu í Litháen. Dainius hefur sýnt fatahönnun sína víða um heim og hlotið verðlaun og mikið lof fyrir. Áður en hann hóf störf hjá JÖR hafði hann einbeitt sér að hönnun fatnaðar fyrir karlmenn en hannar nú einnig fatnað fyrir konur undir merkjum JÖR. „Ég vinn þannig að konseptið og sagan kemur fyrst, í mínum huga er það kjarni fatalínu eða verks. Samhliða þessu þróast síðan praktíski eða tæknilegi hluti línunnar. Þessi atriði fullkomna svo hvert annað þegar þau eru í réttu jafnvægi.

Hvernig myndirðu lýsa þinni nálgun á fatahönnun?

„Ég sæki innblástur til náttúrunnar en ég byrja iðulega á því að eyða tíma úti í náttúrunni við að skrifa. Aðalatriðið er að koma skilaboðunum eða sögunni áleiðis en á sama tíma gefa áhorfandanum rúm til eigin túlkunar. Skilaboðin fela alltaf í sér að þú getir bætt sjálfan þig sem manneskju í gegn um hvers konar tjáningu, til dæmis með klæðnaði.“

Hvernig kviknaði áhugi þinn á því að kenna?

„Á meðan ég starfaði hjá JÖR þjálfaði ég fjölda manns í starfsnámi, bæði héðan úr Listaháskólanum, Tækniskólanum og erlendis frá. Ég naut þess að takast á við að miðla þekkingu minni á skipulegan hátt og þá fór að vakna hjá mér áhugi fyrir því að kenna. Því var ég mjög ánægður þegar Katrín Káradóttir, fagstjóri fatahönnunar við Listaháskólann, stakk upp á að ég kenndi eitt námskeið við námsbrautina. Síðan hefur eitt leitt af öðru.“

Dainiusi líst vel á deildina og hlakkar til að takast á við nýja starfið.

„Það sem ég hef áhuga á varðandi kennslu er að blanda saman tækniþekkingu, hönnun og sögu. Einnig að hvetja nemendur til að fá innblástur annarsstaðar frá en frá tísku og leita meira inn á við. Tíska snýst um meira en tískupalla og mér finnst námsbrautin hér vera opin fyrir nýjum hlutum og hún er að takast á við breytingarnar sem eru að eiga sér stað í faginu. Málið snýst um skapandi einstaklinga sem tjá sínar sögur í gegn um þennan ákveðna miðil og deili ég þeirri skoðun fagstjóra að flíkur verði að gegna mikilvægara hlutverki en að svara kaupæði og menga jörðina.