Breski listfræðingurinn og myndlistargagnrýnandinn Claire Bishop er
annar gestur og þátttakandi í fyrirlestraröðinni Umræðuþræðir.
Miðvikudaginn 21.mars kl. 20 flytur hún erindi um þátttökugjörninga með
vísun í verk listamannsins Santiago Sierra. Frá því á fyrri hluta 10.
áratugarins hefur sú tilhneiging verið áberandi meðal
gjörningalistamanna að nýta sér utanaðkomandi aðila til þátttöku í
verkum sínum. Fremur en að stíga sjálfir fram (líkt og meirihluti
gjörningalistamanna gerði á sjöunda áratuginum fram að lokum þess
níunda) hafa listamenn tekið það upp að ráða ófaglærða aðila til að
flytja eða framkvæma verkin . Með því að nýta sér aðra aðila sem beinan
efnivið í eigin verkum, hefur slíkt fyrirkomulag vakið upp heitar
umræður um siðferði framsetningarinnar. Í erindi sínu mun Bishop tala
gegn slíkum siðferðilegum vangaveltum, þar sem megináhersla er lögð á
þá samfélagslegu undirstöðu sem býr að baki verkanna.

Claire Bishop hefur sinnt skrifum fyrir fjölda alþjóðlegra
listtímarita á borð við Artforum, Flash Art, og October. Greinar
Antagonism and Relational Aesthetics (October, 2004) og The Social
Turn: Collaboration and its Discontents (Artforum, 2006) eru með
áhrifameiri skrifum síðari ára sem hafa verið þýddar á fjölda tungumála
og endurútgefnar. Einnig má nefna útgáfur á borð við Participation
(MIT Press, 2006) og Installation Art: A Critical History (2005).
Bishop hefur einnig fengist við sýningarstjórn athyglisverðra sýninga
má þar helst nefna Double Agent (ICA, London; Mead Gallery, Warwick
Arts Centre; og Baltic Centre for Contemporary Art, Gateshead). Bishop
býr og starfar í New York. Hún er prófessor í samtímalistfræðum og
sýningarstjórn við Listasögudeild CUNY Graduate Center, New York og
hefur áður fengist við kennslu við Royal College of Art, London og
Warwick University.

Umræðuþræðir er samvinnuverkefni Listasafn Reykjavíkur, Kynningarmiðstöð
íslenskrar myndlistar og Listaháskóla Íslands. Með verkefninu er lagt
uppi með að skapa vettvang hérlendis fyrir alþjóðleg tengsl og umræður í
fyrirlestraröð ár hvert, með þátttöku áhrifamikilla sýningarstjóra,
fræði- og listamanna. Bandaríska sendiráðið á Íslandi er
aðalstyrktaraðili fyrirlestrarraðarinnar fyrir árið 2012.

Fyrirlesturinn fer fram á ensku og er öllum opinn án endurgjalds.

Nánari upplýsingar um heildardagskrá Umræðuþráða 2012 er að finna hér.