Á dögunum kom út bókverkið Willow Project sem byggir á samnefndu verkefni nemenda í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands, efnisrannsókn á víði. Bókin kemur út hjá forlaginu Partusi og er styrkt af Útgáfusjóði Listaháskólans og Skógræktarfélagi Reykjavíkur.

Tinna Gunnarsdóttir og Friðrik Steinn Friðriksson voru leiðbeinendur nemendanna sem eru á þriðja ári í vöruhönnun en Tinna er einnig ritstjóri bókarinnar. „Bókin kom þannig til að okkur langaði til að safna gögnunum saman og báðum nemendur að skila inn bókverki um rannsóknir sínar,“ segir Tinna. „Þessi bók byggir á þeim niðurstöðum en við yfirfórum handritið bættum við textum og skýringarmyndum og fengum grafíska hönnuðinn Snæfríði Þorsteins til liðs við okkur til að fínpússa hönnunina  og búa verkið undir prentun. Það skiptir miklu máli að þeirri vitneskju og þekkingu sem verður til innan skólans sé fylgt eftir og deilt utan veggja hans.“

Nemendurnir unnu verkið sem ein heild en þau eru Birta Rós Brynjólfsdóttir, Björn Steinar Jóhannesson, Emilía Sigurðardóttir, Johanna Seelemann, Kristín Sigurðardóttir, Theodóra Mjöll Skúladóttir Jack og Védis Pálsdóttir.

Verkefnið gekk út á að umbreyta víði á margvíslegan hátt en engu var bætt við nema vatni og hita og allir afgangar sem urðu til í ferlinu voru nýttir. Þannig var áherslan á sjálfbæra hringrás efna. Bókin er uppbyggð þannig að hún hefst á textum sem setja verkefnið í samhengi við skógarfræði, heimspekilegar vangaveltur og áþekk alþjóðleg verkefni. Rannsókninni er síðan skipt í þrjá kafla; suðu, brennslu og eymingu en meðal þess sem nemendur unnu úr víðinum er kalkmassi og saltsteinn úr víðiösku og tjörugler unnið úr víðivatni. „Það var mjög áhugavert að skoða víðinn en hann hafði fengið svo litla athygli hérlendis, nema í sambandi við skógrækt,“ segir Tinna. „Tilgangurinn með bókinni er að vekja áhuga fólks á vanmetnum staðbundnum efnivið. Það skipti mjög miklu máli að prófa sig áfram með víðinn á þennan hátt og nú er búið að kortleggja hvað sé hægt að gera úr honum og þá er hægt að taka næstu skref, þetta er bara byrjunin. Bókin miðlar svo þessum rannsóknum bæði sjónrænt og með texta.“

Nemendur sýndu Willow Project á Hönnunarmars og síðan á Skriðuklaustri en stefnt er að því að sýna verkið einnig erlendis. „Því er mikilvægt að bókin sé á ensku svo hún geti fylgt sýningunni út og stuðlað að samtali út fyrir landssteinana.“

Nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðu verkefnisins og Partus Press.

Bókin fæst í Eymundsson, Bókabúð Máls og menningar, Gerðarsafni og Listasafni Íslands.