Björn Guðbrandsson hefur verið ráðinn prófessor í arkitektúr við hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskólans. Hann hefur mikla reynslu sem arkitekt innanlands auk þess að vera virkur á alþjóðavísu. Af verkum Björns má nefna að hann var aðalhönnuður fangelsisins á Hólmsheiði og hjúkrunarheimilis Seltjarnarness. Þá hefur Björn hlotið fjölda verðlauna í samkeppnum, þ.á.m. fyrstu verðlaun fyrir fangelsið á Hólmsheiði og safnaðarheimili Ástjarnarkirkju. Björn er einn eiganda Arkís arkitekta.

Björn hefur umtalsverða, alhliða reynslu af kennslu og þróun náms á háskólastigi og hefur kennt fjölda námskeiða við Listaháskóla Íslands auk þess að hafa kennt við Háskólann í Reykjavík. Þá var hann ásamt fleirum sýningarstjóri útskriftarsýningar Listaháskóla Íslands 2010 í Listasafni Reykjavíkur.

Björn hefur lokið bakkalárgráðu í umhverfishönnun frá Texas A&M University, meistaragráðu í arkitektúr frá Columbia University í New York og löggildingarprófi fyrir mannvirkjahönnuði.